Forsvarsmenn Ice Pic Journeys gefa út yfirlýsingu

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Forsvarsmenn Ice Pic Journeys hafa gefið út yfirlýsingu eftir banaslys sem varð í ferð á vegum fyrirtækisins á Breiðamerkurjökli á sunnudag.

„Við hjá Ice Pic Journeys hörmum mjög það slys sem átti sér stað í Breiðamerkurjökli síðastliðinn sunnudag í ferð á okkar vegum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Hugur okkar er hjá aðstandendum þess sem lést og öllum þeim sem lentu í slysinu, fjölskyldum þeirra og ástvinum sem takast á við krefjandi aðstæður nú og á komandi tímum. Það er erfitt að ímynda sér þann sársauka sem slíkt áfall og missir veldur.“

Segjast ekki munu tjá sig frekar

Tekið er fram að nú leggi fyrirtækið áherslu á að veita starfsfólki sínu stuðning og aðstoð til að takast á við áfallið sem það hafi orðið fyrir, og hlúa að andlegri heilsu þess.

„Við lítum málið alvarlegum augum og munum halda áfram að vinna náið með lögreglu og yfirvöldum til að tryggja að málið verði rannsakað af fyllstu kostgæfni,“ segir í yfirlýsingunni.

„Af virðingu við þau sem lentu í slysinu og aðstandendur þeirra munum við ekki tjá okkur frekar um málið fyrr en rannsókn þess er lokið.“

Undir þetta rita stofnendurnir Mike Reid og Ryan Newburn.

Ekki hefur náðst í þá þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undanfarna daga.

Einn lést og kona hans slasaðist

Bandarískur maður lést í slysinu á sunnudag og þunguð kona hans var flutt á sjúkrahús í Reykjavík eftir að þau lentu undir ísfargi.

Garðar Sigurjónsson, varaformaður í Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna, segir að ákvörðun um brottvísun Mike Reid úr félaginu hafi verið tekin til að gefa Mike rými til að vinna í öðrum hlut­um. Mike sat í stjórn félagsins.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, hefur sagt það ekki tímabært að velta því upp hvort lög hafi verið brotin í aðdraganda slyssins.

Rannsókninni miði vel áfram.

Tifandi tímasprengja

Frá því banaslysið varð hafa sprottið upp umræður um jöklaferðir að sumarlagi.

Magnús Tumi Guðmundsson, kallaði jöklaferðir að sumarlagi „tifandi tímasprengju“, og telur að banna eigi ferðirnar með öllu. 

Vatnajökulsþjóðgarður hefur sent þau tilmæli til íshellafyrirtækja á Breiðamerkurjökli að fara ekki í íshellaferðir á meðan slysið er enn til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert