Gígbarmar vaxa – Landsig heldur áfram

Eldgosið við Sundhnúkagíga er í fullum gangi.
Eldgosið við Sundhnúkagíga er í fullum gangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Töluverð kvikustrókavirkni er áfram í tveimur gígum nyrst á gossprungunni í eldgosinu við Sundhnúkagíga. Gígarnir liggja mjög nálægt hvor öðrum og eru gígbarmarnir smám saman að vaxa. 

Virknin er svipuð og verið hefur undanfarna daga, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Lítil jarðskjálftavirkni hefur verið í kvikuganginum og hefur landið haldið áfram að síga vegna þess að kvikuhólfið er að tæmast. GPS-mælar Veðurstofunnar sýna þetta.

Engin loftmengun mælist núna, enda hægur vindur. Að sögn Bjarka er norðanátt og fýkur reykurinn því út á sjó. Seinnipartinn í dag og í kvöld snýst í vestanátt og þá gæti mengun farið yfir Suðurland.

Gróðureldar virðast sömuleiðis ekki hafa verið miklir í nótt á svæðinu við eldgosið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert