Glóandi dreki og land í bláu skini

Þessi mynd er tekin á fyrstu dögum gossins þegar allt …
Þessi mynd er tekin á fyrstu dögum gossins þegar allt var að gerast. Jörðin bókstaflega kraumaði og frá allt að 100 metra háum eldsúlum vall hraunstraumur sem eftir sólarhring frá gosbyrjun þakti orðið fjóra ferkílómetra. Allt er hið nýja og kolsvarta Holuhraun 85 ferkílómetrar að flatarmáli. mbl.is/Árni Sæberg

Í ljósaskiptum skammdegis blasti rauðglóandi eldkeilan við, séð úr langri fjarlægð. Fljótlega eftir að flugvélin var komin inn yfir hálendið blasti eldgosið við okkur og myndin af því varð skarpari þegar nær var komið.

Glóandi súlur stóðu hátt til himins og í víðfeðmu hrauninu sem rann úr gígnum sást í glóðir. Sýnu mest kraumaði í einum katli og frá honum vall hraunelfur um langan veg. Flugstjórinn lækkaði flugið og renndi vélinni lágt yfir svo að farþegarnir gætu séð beint í kvikuna.

Gosið var með kröftugasta móti þessa stundina og sjónarspil þess var mikið. Glóðin rauð og bláleitt gas í loftinu. Hraunið biksvart og fjær var snjóföl á landinu.

Þetta var 6. desember og frásögn úr þessari ferð með flugvél Flugfélags Íslands kom í Morgunblaðinu tveimur dögum síðar.

Sjónarspilið var stórkostlegt þegar sólin lýsti upp gosmökkinn yfir Holuhrauni. …
Sjónarspilið var stórkostlegt þegar sólin lýsti upp gosmökkinn yfir Holuhrauni. Gasið steig upp og rauðglóandi hraunið ólmaðist í gígnum. mbl.is/RAX

Stærsti skammtur frá Skaftáreldahrauni

Eldgos hófst í Holuhrauni, norðan Vatnajökuls, 29. ágúst 2014; fyrir réttum og sléttum tíu árum. Í upphafi komið lítið gos, sem stóð í aðeins örfáa klukkutíma. Það var þó aðeins upptaktur að því sem koma skyldi. Um tveimur sólarhringum síðar, aðfaranótt 31. ágúst, hófst mikið eldgos með rúmlega 1.500 metra langri sprungu. Fram streymdu allt að 300 rúmmetrar af hrauni á hverri sekúndu.

Eins og fólk þekkir frá atburðum síðustu ára á Reykjanesi var kraftur gossins mestur í upphafi. Frá allt að 100 metra háum eldsúlum vall hraunstraumur sem eftir sólarhring frá gosbyrjun þakti orðið fjóra ferkílómetra. Og svona hélt þetta áfram; gosið stóð í hálft ár, fram til 27. febrúar 2015. Þá var hraunið nýja orðið alls 85 ferkílómetrar og hafði svo stór skammtur ekki komið á Íslandi frá Skaftaáreldum árið 1783.

„Þegar við sáum sprunguna var þetta eins og glóandi dreki í landinu. Þetta var mjög glæsilegt,“ sagði í Morgunblaðinu 1. september 2014 þegar Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur lýsti stöðunni á svæðinu.

Upphaf gossins í Holuhrauni er að mikil skjálftahrina sem hófst í Bárðarbungu á Vatnajökli fór af stað upp úr miðjum ágústmánuði þetta ár. Virknin var mest til að byrja með á jöklinum en leitaði svo til norðurs, í átt að Holuhrauni sem er skammt sunnan við Dyngjufjöll. Mælar sýndu hundruð skjálfta á dag og mældist sá stærsti 5,7 að stærð.

Veisla fyrir vísindamenn

„Allt kemur heim og saman við Kröfluelda, sem er eðlilegt því við erum með þetta rekbelti sem liggur í gegnum landið og losar spennu í punktum sem við köllum eldstöðvakerfi. Núna er verið að losa spennu í Bárðarbungukerfinu,“ sagði Ármann jarðfræðingur í Morgunblaðinu 2. september, þá staddur á vettvangi.

Þar voru blaðamenn Morgunblaðsins líka og sendu frá sér efni sem birt var bæði í blaði og á mbl.is. Ef grúskað er í fréttum frá þessum tíma fæst harla góð mynd af gosinu og framvindu þess af umfjöllun Morgunblaðsins. Alltaf var eitthvað nýtt að gerast eins og greint var frá í fréttum.

Fyrir vísindamenn var þetta eldgos, eins og öll önnur raunar, algjör gullnáma. Tekin voru sýni, mælingar gerðar og myndir teknar. Allt þetta nýttist til mikilvægra rannsókna, sem skiluðu niðurstöðum sem nýst hafa síðan.

Flugvélin hnitaði hringi yfir eldgosinu svo að farþegar gátu horft …
Flugvélin hnitaði hringi yfir eldgosinu svo að farþegar gátu horft beint ofan í Baug, gíginn mikla. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjöll í móðu

Eitt af því sem var mjög áberandi í Holuhraunsgosinu var gasmengunin sem því fylgdi; bláleit móða sem lá jafnvel yfir stórum hluta landsins. Þann 20. september 2014 var Ölfus séð af Kambabrún „í bláum skugga“ og svipur landsins sérstakur.

Því hefur verið lýst að í bítið við upprás á þessum tímum gasmengunar hafi sólin verið eldrauð og geislamagn hennar dauft. Fjöll hurfu í móðu. Mengunin frá gosinu var líka mikil – og brennisteinsdíoxíð í hæstu hæðum.

Aðvaranir voru gefnar út vegna þess og fólk hvatt til að vera innandyra. Sérstaklega var mengunin mikil á Hornafirði og við gosstöðvarnar sjálfar þar, sem vísindamenn gengu um með grímur til að verjast hinu lúmska eitri.

Holuhraun skyldi það heita

Raunar varð eitrun þessi að fjölþjóðlegu vandamáli. Dularfull og illþefjandi þoka gerði um miðjan september fólki á Norðurlöndum lífið leitt.

„Fólk á tilteknum svæðum í Svíþjóð lýsti fyrirbærinu ýmist sem skítalykt eða lykt af úldnu kjöti. Blaðið sagði ástæðuna þá að íslenska eldfjallið Bárðarbunga hefði „leyst vind“ ef svo mætti segja. Veðurfræðingur sagði við Aftonbladet að fnykinn hefði einnig lagt til Noregs, sagði í Morgunblaðinu 12. september. Vinklar á málum voru margir og óteljandi fréttir af þessum náttúruhamförum voru sagðar og birtar meðan á þeim stóð, það er í hálft ár. Holuhraun var heitur reitur.

Og Holuhraun skyldi það líka heita; það ákvað sveitarstjórn Skútustaðahrepps – það er Mývatnssveitar – en þetta svæði var innan landamerkja þess sveitarfélags, sem nú er Þingeyjarsveit.

Ekki þótti ástæða til að breyta nafni á svæðinu þrátt fyrir nýtt hraun, þó að fram hafi komið tillögurnar Urðarbrunnur, Flæðahraun og Nornahraun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka