„Góður miðbær er hjarta allra samfélaga“

Rósa Guðbjarts­dótt­ir bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, Guðmund­ur Bjarni Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri 220 Fjarðar, …
Rósa Guðbjarts­dótt­ir bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, Guðmund­ur Bjarni Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri 220 Fjarðar, Har­ald­ur Reyn­ir Jóns­son stjórn­ar­formaður og Bene­dikt Stein­gríms­son stjórn­ar­maður und­ir­rita kaup­samn­ing­. mbl.is/Eyþór Árnason

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir framkvæmdirnar í verslunarmiðstöðinni Firðinum vera algjöra byltingu fyrir Hafnarfjörð. 

„Þetta mun að mínu mati auka umsvif, það er að koma hérna þetta glæsilega húsnæði með nýrri matvöruverslun, bókasafni, íbúðum, hótelíbúðum og verið að bæta og efla verslunarrýmið. Þetta mun vera algjör bylting fyrir bæjarlífið og verða mikið aðdráttarafl fólks í miðbæinn,“ segir Rósa.

Breytingarnar og uppbyggingin í Firðinum eru stærstu framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbæ Hafnarfjarðar á áratugum. 220 Fjörður áætlar að byggja 18 hótelíbúðir, 31 lúxusíbúð, verslunar- og þjónusturými og bílastæðakjallari. Þá verður einnig matvöruverslun og mathöll í húsnæðinu. Í gær var undirritaður kaupsamningur á húsnæðinu. 

Nútímavæða bókasafnið 

Rósa útskýrði að ákvörðun um að tryggja rými fyrir bókasafnið í þessari nýju byggingu hafi verið tekin til að nútímavæða bókasafnið.

„Okkur fannst kjörið tækifæri að koma inn í svona metnaðarfulla framkvæmd og byggingu sem hér væri að fara af stað og erum að ganga frá kaupum á myndarlegu rými þar sem bókasafnið verður allt á einni hæð og við munum þróa og efla starfsemi bókasafnsins með því að nútímavæða það,“ segir Rósa.

„Við erum að efla og þróa starfsemina þannig að ég veit að þetta mun gagnast fólki á öllum aldri. Þetta verður staður til þess að njóta, næra andann, hitta annað fólk, vera í einrúmi eða hvað það er,“ segir Rósa.

Samkomustaður fyrir samfélagið 

Að sögn Rósu verða fleiri möguleikar fyrir menningartengda viðburði á bókasafninu og að nýja bókasafnið muni verða mikilvægur samkomustaður fyrir samfélagið. 

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þátt í þessu, mér er mjög mikið í mun að efla miðbæinn því að sterkur og góður miðbær er hjarta allra samfélaga vill ég meina og allra Hafnfirðinga og okkar gesta,“ segir Rósa að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert