Hvorki ráðherrabíll né ráðherrabílstjóri sem ók of hratt

Bíllinn sem ráðherrann ferðaðist á í gær var ekki á …
Bíllinn sem ráðherrann ferðaðist á í gær var ekki á vegum Stjórnarráðsins.

„Þarna var ekki um að ræða ráðherrabíl eða ráðherrabílstjóra.“

Þetta áréttar Viktor Jens Vigfússon, framkvæmdastjóri Umbru - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, sem annast m.a. akstursþjónustu við ráðherra ríkisstjórnarinnar, í tengslum við fréttaflutning af bílferð Guðlaugar Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra í gær.

Vakti það athygli að ráðherrann birti mynd á Instagram-reikningi sínum í gær þar sem hann situr í farþegasæti bifreiðar á leið á Sauðárkrók, en á myndinni sést greinilega að bíllinn ekur á 110 km hraða eða 20 km yfir leyfilegum hámarkshraða. 

Bílstjórar fari auðvitað eftir umferðarlögum

Aðspurður segir Viktor það vissulega vanann að ráðherrar ferðist um í ráðherrabifreið í  opinberum erindagjörðum en að stundum komi upp tilfelli þar sem ráðherra þurfi eða kjósi að nota annan ferðamáta.

„Okkar bílstjórar fá góða þjálfun og fara eftir ákveðnum verklagsreglum og auðvitað þarf að fara eftir umferðarlögum og tryggja öryggi ráðherra.“

Spurður hvort hann viti hvaða bifreið ráðherrann hafi ferðast með norður á land í gær kveðst Viktor ekki þekkja það. 

Ekki hefur náðst í ráðherrann vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert