Kom til Íslands og fannst hún vera að horfa á endalokin

Jökulsárlón hafði djúpstæð áhrif á ferðalangana.
Jökulsárlón hafði djúpstæð áhrif á ferðalangana. mbl.is/Ásdís

„Mér líður eins og ég sé að horfa á endalok mannkyns.“ 

Svona hljóma upphafsorð greinar Antoniu Zimmermann sem birtist á bandaríska fréttavefnum Politico fyrr í dag.

Ber hún yfirskriftina: „Ég fór til íslands í bílferð. Ég fór þaðan með loftslagskvíða.“

Í greininni fjallar Zimmermann um það hvernig Íslandsferð hennar fyrr í mánuðinum hafi vakið hana til umhugsunar um hlýnun jarðar og áhrif ferðamennsku á Ísland.

„Rétt eins og í tilfelli milljóna annarra ferðamanna var það hrifning mín af landslagi sem virðist vera af öðrum heimi og náttúruundur sem drógu mig hingað í ágúst. Samt sem áður er það einmitt þessi ferðaþjónustuiðnaður sem nú blómstrar sem er að valda óafturkræfum breytingum á náttúrunnu. Breytingum sem neyða eyjuna til að endurskoða hvernig hún háttar ferðaþjónustu,“ skrifar Zimmerman.

Tekur lúpínu sem dæmi

Hún rekur svo þau merki um breytta náttúru sem hún varð vör við á ferð sinni um landið.

Hún útskýrir hvernig jöklar bráðna nú á methraða, hvernig hnúfubakar eru orðinir tíðir gestir við strendur landsins vegna breytinga á fæðukeðju sjávar og hvernig alls staðar megi sjá lúpinu, sem upphafleg var nýtt í landgræðslu en ógni nú líffræðilegum fjölbreytileika.

Þá minnist hún á banaslysið sem varð á Breiðamerkurjökli um helgina og vitnar í því samhengi í samtal sitt við Hans Welling sem rannsakar nú áhrif hlýnunar jarðar á ferðamannaiðnaðinn á Íslandi.

Welling segir að á meðan það væri óábyrgt að segja að hlýnun jarðar væri ástæða slyssins sé líklegt að við munum sjá fleiri slík slys með árunum. 

Þögn sló á hópinn

Zimmermann vitnar sömuleiðis í Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og talar um að hann hafi heitið því að draga úr neikvæðum áhrifum ferðamennsku hér á landi með ferðamannaskatti á ákveðnum stöðum.

Greinin endar á nokkuð dramatískri en táknrænni lýsingu frá bílferð Zimmermanns og félaga hennar eftir hringveginum en þögn hafði slegið á hópinn við Jökulsárlón vegna þeirra ummerkja um hlýnun jarðar sem þar birtust.

„Þegar við keyrum áfram eftir hringveginum þarf ég fljótlega að stöðva bílinn þar sem hellirigning og gluggar fullir af móðu gera aksturinn sífellt hættulegri.

Þegar við svo höldum áfram hefur þörfin til að deila pælingum okkar og hughrifum snúið aftur og við komum fljótlega að öðru jökullóni. Það dregur úr rigningunni og regnbogi birtist yfir þokukenndum skýjabakka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert