Franskar makkarónukökur með pistasíukremi frá Joie De Vivre hafa verið innkallaðar vegna salmonellumengunar. Matvælastofnun (MAST) varar við neyslu þeirra en varan er einungis fáanleg í Costco.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef MAST.
„Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af frönskum makkarónukökum með pistasíukremi frá Joie De Vivre sem Costco Iceland hefur flutt inn, vegna salmonellumengunar,“ segir í tilkynningunni.
Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað vörurnar.
„Neytendu[m] sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki heldur farga eða skila henni til verslunar.“
Vöruheitið er French Macarons 36pk og innköllunin á við um framleiðslulotur sem eru með best fyrir dagsetningarnar 14/08/2024, 19/08/2024, 09/09/2024, 18/09/2024 og 27/09/2024.