Manndrápsmál á borði saksóknara í átta mánuði

Selfoss.
Selfoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðssaksóknari hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort maður, sem er grunaður um að hafa átt þátt í andláti ungrar konu á Selfossi í apríl í fyrra, verður ákærður.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, segir í svari við fyrirspurn mbl.is að erlendir sérfræðingar hafi verið dómkvaddir til að fara yfir réttarkrufningu konunnar og liggur mat þeirra enn ekki fyrir.

Umræddur maður er á fertugsaldri. Konan, sem var á þrítugsaldri, fannst látin í heimahúsi. 

Í átta mánuði hjá héraðssaksóknara

Í frétt mbl.is í desember síðastliðnum, eða fyrir um átta mánuðum síðan kom fram að lögreglan hefði lokið rannsókn málsins og að það hefði verið sent til héraðssaksóknara. Það embætti myndi ákveða hvort maðurinn, sem er með réttarstöðu sakbornings, yrði ákærður eður ei.

Að sögn lögreglunnar viðurkenndi maðurinn að hafa spillt vettvangi. Niðurstöður krufningar bentu til þess að dánarorsökin hefði verið kyrking og að kókaíneitrun hefði verið meðvirkandi að dauða konunnar, að því er kom fram í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í ágúst í fyrra. Þar sagði að maðurinn hefði viðurkennt að hafa fært lík konunnar og þannig spillt vettvanginum.

Einnig hefði hann komið undan gögnum og munum sem lögregla taldi að hefðu haft sönnunargildi í málinu með því að hafa eytt stafrænum myndum, sagt upp áskriftum að gagnavörslusíðum og eytt forritum sem geymdu myndefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert