Manni bjargað úr sjálfheldu í bröttu gili

Frá björgunaraðgerðum í gær. Verkefnið tók rúma fjóra klukkutíma.
Frá björgunaraðgerðum í gær. Verkefnið tók rúma fjóra klukkutíma. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitinni Lífsbjörg í Snæfellsbæ barst upp úr klukkan 14 í gær útkall vegna manns sem hafði komið sér í sjálfheldu í gili austan Rauðfeldargjár.

Hann hafði klifrað um 30 til 40 hæðarmetra upp bratt gil og treysti sér ekki aftur niður.

Verkefnið var krefjandi og reyndi á klifurfærni björgunarfólks á bröttustu köflunum. Auk þess var mikil hætta á grjóthruni niður gilið, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

Hér er merkt inn myndina hvar maðurinn var staddur.
Hér er merkt inn myndina hvar maðurinn var staddur. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarfólk fór upp fyrir manninn, setti upp línur og seig niður til hans þar sem hægt var að tryggja hann í línu og aðstoða niður.

Maðurinn var nokkuð kaldur og skelkaður þegar niður var komið, en þó feginn að komast úr brattlendinu. Verkefnið tók rúma fjóra klukkutíma og tóku átta félagar í björgunarsveitinni þátt í verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert