Alvarleg atvik netárása koma nú upp næstum vikulega á Íslandi að sögn Antons Egilssonar, formanns netöryggisfyrirtækisins Syndis.
Hann segir netárásum hafa fjölgað um hundruð prósenta nokkur ár í röð.
Netárásaræfing Syndis og Origo var haldin fyrr í dag þar sem stjórnendur 70 fyrirtækja þóttust bregðast við og æfðu sig fyrir netárás.
Spurður hvað hann myndi ráðleggja fyrirtækjum sem óttast netárásir segir Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri þjónustulausnasviðs hjá Origo, allt snúast um forvarnir.
Hann segir netárásir vera orðnar hluta af áhættumati fyrirtækja. Origo skori á fyrirtæki að gera úttektir á tölvukerfum sínum og huga að því hve mikið ákveðin kerfi þoli.
Ekkert sé fullkomlega öruggt; fara þurfi í áhættumat, þekkja innviði sína og viðhalda þeim reglulega.
„Til dæmis fer netárásum á heilbrigðisþjónustu fjölgandi í Evrópu. Ég held að þær hafi verið 130 í fyrra, samanborið við 30 árið á undan,“ segir Alma Möller landlæknir í samtali við mbl.is. Var hún meðal þeirra sem tóku þátt í æfingunni.
Hún segir Íslendinga þurfa að halda vöku sinni eins og allir aðrir og tryggja að kerfi okkar og viðkvæm gögn séu eins vel varin og hægt er.
Meðferð sjúklinga sé mjög háð netkerfum og að þar séu geymd sérstaklega viðkvæm persónuleg gögn.
„Við þurfum að gera allt sem við getum til að netöryggi sé eins mikið og hægt er,“ segir hún að lokum.