Nýir fréttastjórar viðskiptaritstjórnar

Andrea Sigurðardóttir og Matthías Johannessen.
Andrea Sigurðardóttir og Matthías Johannessen. mbl.is/Arnþór

Tveir nýir fréttastjórar taka við viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins og mbl.is nú um mánaðamótin, þau Andrea Sigurðardóttir og Matthías Johannessen. Gísli Freyr Valdórsson, sem stýrt hefur viðskiptaritstjórninni, hefur ákveðið að láta af störfum og einbeita sér að hlaðvarpi sínu, Þjóðmálum. Um leið og Gísla Frey eru þökkuð góð störf eru Andrea og Matthías boðin velkomin í þau mikilvægu verkefni sem fram undan eru.

Andrea hefur verið á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins og hefur áður starfað sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Hún er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja og próf í verðbréfaviðskiptum. Andrea hefur áralanga reynslu að baki úr atvinnulífinu, meðal annars hjá Marel, Íslandsbanka og Isavia. Fyrir utan áhuga á sveitastörfum eru þjóðmál, efnahagsmál og atvinnulíf hennar ær og kýr og hefur hún um árabil tekið þátt í samfélagsumræðu um þau mál.

Matthías er með próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í viðskiptafræði og fjármálum frá Copenhagen Business School. Hann á langan feril að baki í atvinnulífinu, meðal annars í bönkum hér og erlendis, þar sem hann hefur verið í áhættustýringu, verðmötum og lánaútreikningum, og í innlendum og erlendum lyfjafyrirtækjum, þar sem hann hefur meðal annars verið fjármálastjóri og bar til að mynda um tíma ábyrgð á samrunum og yfirtökum fyrir Actavis í Evrópu og Asíu með náinni samvinnu við Bandaríkin. Á undanförnum árum hefur hann starfað sem fjárfestir og ráðgjafi, einkum alþjóðlegra lyfjafyrirtækja. Fram undan er frekari uppbygging á sviði viðskiptaumfjöllunar hjá Morgunblaðinu og mbl.is sem mun birtast áskrifendum og öðrum notendum miðlanna á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert