„Önnur Evrópulönd eru langt fyrir neðan okkur“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir lækkun verðbólgu jákvæða en hefur þó áhyggjur af neikvæðum áhrifum húsnæðisverðs á hana.

Þá segir hann ekki ganga að einu Evrópuþjóðirnar sem séu með hærra vaxtastig en Ísland séu Úkraína og Rússland.

Tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 6% og lækk­ar hún um 0,3 pró­sentu­stig frá fyrri mánuði þegar hún mæld­ist 6,3%.

Mat­vöru­verð lækkaði um 0,5% milli mánaða á meðan húsa­leiga hækkaði um 0,9 pró­sent.

Upp undir 50% vegna húsnæðis

„Ég gleðst yfir því að sjá verðbólgutölur lækka og sérstaklega yfir því að matvaran lækki en hún er náttúrulega stór útgjaldaliður hjá heimilunum.

Hinsvegar er húsnæðisliðurinn enn og aftur orsakavaldur að hárri verðbólgu á Íslandi. Upp undir 50% af verðbólgu frá áramótum er vegna þess liðar sem er mikið áhyggjuefni og hefur verið um áratugaskeið,“ segir Vilhjálmur inntur eftir viðbrögðum við nýjum verðbólgutölum.

Hann segir að tölurnar séu í anda þess sem verkalýðshreyfingin hafi talið og að kjarasamningarnir sem gerðir voru í vor hafi verið með þeim hætti að þeir myndu styðja við þessa þróun.

Þá segir hann að tölurnar sýni að það hafi verið svigrúm til vaxtalækkana við síðustu vaxtaákvörðun.

„Það má heldur ekki gleyma því að ef það er verið að lækka vexti þá eykur það á getu fyrirtækja til að halda aftur verðlagi með lækkuðum fjármagnskostnaði. Hátt vaxtastig bitnar líka á skuldsettum fyrirtækjum, litlum og meðalstórum,“ segir Vilhjálmur. 

Trúir ekki öðru

Spurður hvort hann sé vongóður á að pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabankans lækki stýrivexti næst þegar ákvörðun verður tek­in um þá í október seg­ir hann:

„Ég bara trúi ekki öðru. Enda gengur ekki upp að horfa á einungis tvö lönd hér í Evrópu sem eru með hærri vaxtakjör en við Íslendingar og það eru þjóðir sem eru í blóðugum stríðsátökum, Úkraína og Rússland. Önnur Evrópulönd eru langt fyrir neðan okkur.“

Að lokum segir Vilhjálmur að hans skoðun sé að hér þurfi að fara fram óháð erlend úttekt á því af hverju „við séum hér með eitt dýrasta land í heimi, verðtryggingu og vaxtakjör sem eru tvöfalt til þrefalt hærri en í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert