Öskraði á fólk inni í verslun og stal vörum

Tilkynnt um ógnandi mann að öskra á fólk inni í …
Tilkynnt um ógnandi mann að öskra á fólk inni í verslun í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag mann eftir að hann réðst á einstakling í verslun. Fyrr um daginn hafði lögregla þurft að hafa afskipti af manninum í annarri verslun í miðborg Reykjavíkur þar sem hann öskraði á fólk, stal vörum og æsti sig við starfsmenn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum henn­ar frá klukk­an 5 í morgun til klukk­an 17 í dag. 

Þar segir að lögreglu hafi borist tvær tilkynningar vegna mannsins í dag. Í seinna skiptið var maðurinn til ama í verslun og var hann handtekinn eftir að hafa ráðist á þann sem tilkynnti hann til lögreglu.

Maðurinn var vistaður í fangaklefa vegna málsins.

Ók gegn rauðu ljósi 

Þá var tilkynnt um árekstur í Kópavogi.

Þar hafði einni bifreið verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi sem hafnaði á tveimur öðrum bifreiðum, annarri sem var á ferð yfir gatnamótin gegn grænu ljósi og hinni sem var kyrrstæð. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka