Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, ráðleggur fólki að forðast ferðalög við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum.
Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun vegna mikillar rigningar á þessum svæðum og varar við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum, sem eykur hættuna á flóðum og skriðuföllum.
Mesta úrkoman verður á sunnanverðum Vestfjörðum, Barðaströnd og Snæfellsnesi, og gera má ráð fyrir því að úrkoman verði samfelld fram yfir helgi, bæði á Suðurlandi og Vesturlandi.
Ákefðin verður í kringum 5-10 mm/klst, og til fjalla nær hún mest 15 mm/klst.
Veðurstofan spáir því að uppsöfnuð úrkoma nái tæplega 140 mm á 24 klst á sunnanverðum Vestfjörðum og Barðaströnd, og 155 mm á Snæfellsnesi.
„Það er ekkert voða gott að vera ferðast mikið á þessu svæði,“ segir Haraldur.
„Það er í raun bara að fara varlega, þetta er til dæmis ekkert veður til þess að fara í tjaldútilegur eða eitthvað svoleiðis. Þetta er vatnsveður,“ segir Haraldur, en bætir við að líklegast verði þurrt á Austurlandi.