Rifjar upp 71 árs gamalt skemmdarverk

Greint var frá skemmdarverkinu í Morgunblaðinu 18. febrúar 1953.
Greint var frá skemmdarverkinu í Morgunblaðinu 18. febrúar 1953.

„Kommúnistar svívirtu þjóðsönginn í fyrrinótt.“

Svo hljómaði fyrirsögn fréttar í Morgunblaðinu 18. febrúar 1953. Skemmdarverk hafði verið framið á hitaveitugeymum í Reykjavík, þar sem Perlan er nú, en aldrei fundust sökudólgarnir.

Árni Björnsson, einn spellvirkjanna, rifjaði upp sinn hlut hlut í málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„O$VORS LANDS,“ hafði verið málað með tjöru á hitaveitugeymana og var það gert til að mótmæla veru bandarískra hermanna sem voru áberandi á götum Reykjavíkur.

Bók eftir Árna kom út árið 2017 með endurminningum og frásögnum og þar kom frásögnin hans af málinu upphaflega fram. Bókin heitir Í hálfkæringi og alvöru og á blaðsíðu 685 er hægt að lesa frásögn hans.

Baksíða Morgunblaðsins 18. febrúar 1953.
Baksíða Morgunblaðsins 18. febrúar 1953.

Í skjóli nætur

Útskýrir Árni að Jökull Jakobsson, vinur hans, hafi átt hugmyndina að verknaðinum. Jökull hafi einnig verið sá sem tjargaði stafina á hitaveitugeymana.

„En við hinir gerðum ekki annað í rauninni en að bera tjöru og kústa upp Öskjuhlíðina og síðan að standa á verði. Þetta var um miðja nótt,“ segir Árni.

Hann segir að það hafi ekki komið á óvart að verknaðurinn hafi vakið athygli, enda hafi hann einmitt átt að gera það.

Mogginn sagði kommúnista bera ábyrgð

Í Morgunblaðinu sagði um verknaðinn á sínum tíma:

„Það, sem gerst hefur upp við geymana er, að einhverjir af fyrirliðum kommúnista hér í bænum, hafa skipað a.m.k. tveimur hinna auðsveipu vikapilta sinna að fara í skjóli næturinnar og myrkursins upp að geymunum og hafa meðferðis málningu, sem skjótt þornar.“

Dátarnir farið í taugarnar á mörgum

Árni segir í viðtali Stöðvar 2 að bandarísku hermennirnir hafi spókað sig og þótt nokkuð góðir með sig.

„Og það fór í taugarnar á mörgum,“ segir hann um bandarísku dátana, en um verknaðinn:

„Þetta voru auðvitað líka gamanmál, en öllu gamni fylgir nokkur alvara.“

Uppfært klukkan 22.10

Upphaflega sagði að Árni hefði stigið fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 og loksins játað hlut sinn í málinu.

Hið rétta er að hann steig fram árið 2017 með bók sinni sem heitir Í hálfkæringi og alvöru. Á blaðsíðu 685 er hægt að lesa frásögn hans af skemmdarverkinu sem hann átti hlut að árið 1953.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert