Vilhjálmur Árnason, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar séu óviðunandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Miðflokkurinn mælist nú með 15,3% fylgi á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn mælist aðeins með 13,9% fylgi, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Maskínu.
„Að sjálfsögðu er það ekki viðunandi staða að flokkur [Miðflokkurinn], sem er tilbúinn að vera bæði til hægri og vinstri, sé að taka fram úr okkur á grundvelli þess að takast betur að setja borgaraleg gildi og hægrimál á dagskrá í umræðunni,“ segir Vilhjálmur aðspurður.
Telur þú að það þurfi að skipta um forystu í flokknum?
„Ég held að það sé ekki einhver svoleiðis „quick-fix“ lausn sem leysi þennan vanda ein og sér. Ég hef nú bara alltaf talað fyrir því að við þurfum að tala fyrir málefnum. Stjórnmál snúast um að berjast fyrir hugsjónum og málefnum, ekki um einstakar persónur,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur telur að það sé ekki nein ein skýring sem útskýri fylgistapið sem hann lýsir sem „svekkjandi þróun“.
„Þetta sýnir að við þurfum að gera vel á mörgum sviðum. Það er ekki eitthvað eitt sem við getum lagað til að snúa þessu við,“ segir Vilhjálmur.
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman laugardag á Hilton Reykjavík Nordica og Vilhjálmur væntir þess að trúnaðarmenn muni ræða um stöðuna heiðarlega og opinskátt.
Hann segir flokkinn þurfa að tala betur fyrir borgaralegum gildum og hægrimálum og bætir því við að meirihluti þjóðarinnar vilji sjá slíkt.
Spurður hvort að slíkt sé hægt í núverandi stjórnarsamstarfi segir Vilhjálmur:
„Auðvitað getur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf talað fyrir sínum hugsjónum óháð ríkisstjórnarsamstarfi. En það er ekki þar með sagt að í þriggja flokka ríkisstjórn að þú náir öllu fram, en þú getur verið skýr talsmaður þinna hugsjóna óháð samstarfinu. Það er ekkert sem bannar þér það,“ segir hann og bætir við að þar geti hann, aðrir þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gert betur.