Rotaðist eftir ísklump í íshellaferð

Atvikið kom upp á Breiðamerkurjökli.
Atvikið kom upp á Breiðamerkurjökli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þann 16. ágúst kom upp atvik þar sem ferðamaður í íshellaferð á Breiðamerkurjökli rotaðist. Helgaðist það af því að ísklumpur, sem var um 30 cm að þvermáli, féll á höfuð mannsins úr þriggja til fjögurra metra hæð. Missti hann meðvitund um skamma stund að því er fram kemur í atvikaskýrslu fyrirtækisins sem sá um ferðina. 

Um var að ræða rúmlega tvítugan mann frá Suður-Kóreu sem var á ferð með foreldrum sínum. Klumpurinn er sagður hafa fallið úr jökulhlið og strokist við hjálm á höfði hans en lenti ekki beint á ofan á hjálminum þannig að hryggjarsúla eða aðrir líkamspartar hefðu verið í hættu.  

Hélt áfram með ferðina 

Ungi maðurinn var í íshellaferð á sama stað og banaslysið sem varð þegar ísfarg lenti á bandarísku pari með þeim afleiðingum að maður lést og konan flutt til Reykjavíkur á sjúkrahús.

Málið var unnið eftir viðbragðsáætlun fyrirtækisins. Eftirlit var haft með unga manninum á staðnum eftir atvikið og fjölskyldu hans ráðlagt að fylgjast með honum og sækja sér læknisþjónustu ef einhver einkenni höfuðáverka gerðu vart við sig. Maðurinn hélt hins vegar áfram með ferðina og var ekki fluttur á sjúkrahús eða lögreglu ekki gert viðvart að því er fram kemur í skýrslunni. 

Fyrsta atvikið í tíu ár 

Að sögn Birgis Þórs Júlíussonar, sem er einn eigenda Niflheima efh., sem selur ferðir undir merki Glacier Mice, gerðist slysið í ferð á vegum fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur boðið upp á jöklaferðir í 10 ár og segir Birgir svona alvarleg tilvik afar sjaldgæf og hafi raunar ekki komið upp hjá fyrirtækinu áður en það hefur verið annað tveggja fyrirtækja sem hefur boðið upp á sumarferðir á Breiðamerkurjökul. Einnig eru farnar sumarferðir í íshella á Kötlujökli og Langjökli svo dæmi séu nefnd. 

Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og einn eigenda Niflheima ehf.
Birgir Þór Júlíusson er leiðsögumaður og einn eigenda Niflheima ehf. Ljósmynd/Aðsend

„Maðurinn jafnaði sig fljótt en þetta fékk á mig þegar ég frétti af þessu. Það er ekki algengt að menn vankist eftir svona og þetta er í fyrsta skipti sem þetta gerist í ferð hjá okkur,“ segir Birgir. 

Í atvikaskýrslu segir að leiðsögumaður hefði verið fjölskyldu mannsins innan handar og veitt henni upplýsingar um það hvernig ná mætti í hann eftir ferðina. Þá var bókunarfyrirtækinu sem sá um að bóka ferðina fyrir hönd fólksins gert viðvart. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert