Segir ungu konuna beitta þvílíku óréttlæti

Í Grímsnesi.
Í Grímsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mér blöskraði þetta svo, meðhöndlunin á þessu, þrátt fyrir að lögin séu þeirra megin, að ég bara átti ekki til orð. Þess vegna ákvað ég að skrifa um þetta af því mér finnst þetta bara mannvonska,“ segir Guðrún Njálsdóttir í samtali við mbl.is um framkomu sveitarfélags hennar gagnvart ungri einstæðri móður þriggja barna í Grímsnes- og Grafningshreppi.

70 manns í Grímsnes- og Grafningshreppi, eða um 13% af íbúunum, eru óstaðsett í hús og fá því ekki sömu þjónustu og aðrir íbúar. Þar á meðal er Guðrún og móðirin sem hún skrifaði um í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag.

Þar kom meðal annars fram að hús fólksins væru á reit sem deiluskipulagið hefði tilgreint sem  frístundabyggð. Staðsetning þeirra væri í raun það eina sem kæmi í veg fyrir að svokallaða „förufólkið“ fengi sömu þjónustu. Móðirin greiddi fasteignaskatta sína, sem væru þeir sömu og ef húsið væri staðsett í íbúðarbyggð, og að útsvarið af tekjum hennar rynni einnig til hreppsins.

Guðrún Njálsdóttir skrifaði grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu …
Guðrún Njálsdóttir skrifaði grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag.

Mátti ekki flytja í hreppinn

Móðirin flutti til hreppsins með börn sín þrjú í kjölfar skilnaðar. Að sögn Guðrúnar ákvað hún þá að flytja í hús sem er skráð sem frístundaheimili vegna staðsetningarinnar, þó það uppfylli allar kröfur íbúðarhúss. Henni hafi verið tjáð að hún mætti ekki flytja í hreppinn.

Eins og áður kom fram búa 70 manns í hreppnum við sömu aðstæður. Hafa þau stofnað félagið Búsetufrelsi þar sem þau berjast fyrir því að fá að vera sýnileg.

Þau bentu móðurinni á að hún mætti búa þarna og að hún ætti að fara til Þjóðskrár og skrá sig óstaðsetta í hús í hreppnum, sem hún svo gerði.

Fékk ekki skólaakstur eins og aðrir nemendur

Næst hafi konan þurft að berjast fyrir því að fá akstur fyrir barn sitt í skóla. Þegar það var loksins samþykkt hafi barnið þó ekki fengið skólaakstur eins og öll hin börnin.

Guðrún segir að skólabílinn aki fram hjá húsi móðurinnar en barnið hennar fái aftur á móti ekki far eins og skólasystkini þess.

Þurfti að staulast á hækjum til að koma barni sínu í skólann

Þá segir Guðrún, að móðirin hafi þurft að fara í hnéaðgerð og þá beðið um að barn hennar myndi fá skólaakstur á meðan hún væri rúmliggjandi að jafna sig. Var þeirri beiðni hafnað.

Guðrún segir konuna hafa þurft að staulast út á hækjum til þess að koma barni sínu í og úr skólanum. „Mér finnst þessi unga kona vera beitt þvílíku óréttlæti,“ segir Guðrún.

Á skjön við mannréttindi skattgreiðanda

Í samtali við mbl.is segir Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, að fólkið í hreppnum, sem óstaðsett er í hús, ekki fá alls kyns þjónustu frá sveitarfélaginu. Þar á meðal fái þau ekki póst, snjómokstur á veturna eða heimahjúkrun.

„Það er svo margt sem fylgir þessu sem er á skjön við hin almennu mannréttindi miðað við að þú ert skattgreiðandi,“ segir Guðrún enn fremur.

Þá segir hún þau einnig fá önnur kjör og aðrar bílatryggingar. Hún tekur þó fram að þau séu ekki að biðja um þjónustu heldur að fá að vera sýnileg.

„Ég er ósýnileg í þjóðskrá“

„Þeir ætla ekki að aðstoða okkur við eitt eða neitt og það er ekki boðlegt, skal ég segja, að borga skatt og skyldur í þennan hrepp og að hreppurinn vilji ekki hjálpa fólkinu að vera sýnilegt. Ég er ósýnileg í þjóðskrá,“ segir Guðrún.

Lára segir að þau vilji að hlustað sé á sig og að fundin verði ásættanleg lausn.

Guðrún segir frá því að sveitarstjórinn hafi sagt einu lausnina vera að þau fari þangað sem þau voru áður en þau fluttu í hreppinn.

„Þetta er bara móðgun á hæsta stigi,“ segir Guðrún um ummæli sveitarstjórans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert