Staðan kallar á viðbrögð

Salvör leggur áherslu á að ofbeldishegðun sé tekin föstum tökum.
Salvör leggur áherslu á að ofbeldishegðun sé tekin föstum tökum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bent hefur verið á að hnífaburður sé að aukast hjá börnum sem og ofbeldishegðun. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál,“ segir Salvör Nordal umboðsmaður barna. Hún bendir á að kollegar hennar hjá hinum norrænu þjóðunum hafi viðrað sambærilegar áhyggjur á síðustu misserum.

„Þetta er átakanlegt mál. Þarna eru gerendur og þolendur undir 18 ára aldri og maður er með hugann hjá öllum þessum börnum og fjölskyldunum. Við erum slegin yfir þessum atburðum og þróunin er mikið áhyggjuefni því ofbeldishegðun virðist vera að aukast. Tölur og tilkynningar benda til þess. Við heyrum af ofbeldismálum vegna ábendinga sem koma hingað fyrir utan umfjöllunina í fjölmiðlum. Einnig hafa ýmsir sem vinna með börnum lýst áhyggjum af stöðunni. Áhyggjur af þessari þróun eru víðar en á Íslandi og við þurfum að taka þetta mjög alvarlega.“

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Salvör leggur áherslu á að ofbeldishegðun sé tekin föstum tökum. „Það er hræðilegt ef átakanleg mál þurfa að koma upp til að við bregðumst við. Staðan er þannig að hún kallar á viðbrögð frá stjórnvöldum og finna þarf einhverjar leiðir til að sporna við þessari þróun. Við þurfum einnig að bregðast við sem samfélag og tryggja öryggi barna. Við erum vonandi að vakna til vitundar um þessi mál og taka þarf aukna ofbeldishegðun föstum tökum.“

Orsök ofbeldis getur verið ýmiss konar. „Rannsóknir sýna viss tengsl við ákveðna hópa þar sem börn eru í vanda. Þetta getur verið birtingarmynd stærri vanda og slíkt þarf að skoða sérstaklega. Við höfum lengi bent á að úrræði fyrir börn í margvíslegum vanda skorti. Það gæti mögulega tengst ofbeldismálum í einhverjum tilvikum. Við þurfum að komast að því hvað veldur þessu til að geta tekið á vandamálinu.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert