Telja falsboðin hafa komið frá landi í Evrópu

Líkur eru á að falsboðin hafi komið frá útlöndum.
Líkur eru á að falsboðin hafi komið frá útlöndum. Ljósmynd/Landsbjörg

Lögreglan telur líklegt að falsboðin sem bárust neyðarlínunni um ferðamenn í vanda í Kerlingarfjöllum fyrr í mánuðinum hafi borist frá Evrópu. Hefur íslenska lögreglan sett sig í samband við lögregluyfirvöld í landinu sem boðin eru talin koma frá. 

Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sem vill þó ekki upplýsa hvaða land um ræðir.

Hafa vitað af þessu í svolítinn tíma

Morgunblaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að falsboðin sem hrintu af stað umfangsmikilli leit í Kerlingarfjöllum væru líklega erlend. Hátt í 200 viðbragðsaðilar komu að leitinni en óttast var að ferðamenn væru innlyksa í helli. 

Lögreglu fór þó fljótlega að gruna að um falsboð væri að ræða og var leit að lokum frestað.

Í samtali við mbl.is í dag segir Sveinn að lögreglu hafi grunað í svolítinn tíma að boðin væru erlend en að þau séu enn þá að skoða hvort boðin hafi komið frá umræddu landi.

Hann segir rannsóknina ganga vel og að þau séu enn í gagnaöflun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert