„Þau eru algjörlega í öðrum heimi“

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir nýjar verðbólgutölur sem sýna að verðbólga hafi hjaðnað um 0,3 prósentustig gafa til kynna að fullt tilefni sé til stýrivaxtalækkana.

„Þetta er það sem við vorum í sjálfu sér búin að sjá fyrir og er akkúrat í okkar spá. Þetta fylgir alveg því sem við höfum verið að sjá í verðlagseftirliti okkar, matvaran er að gefa eftir, þetta var bara skot þarna síðast,“ segir Finnbjörn inntur eftir viðbrögðum við nýju tölunum.

„Ég bara veit það ekki“

Þá segir Finnbjörn tímabært að lækka stýrivexti en í síðustu viku tók pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands ákvörðun um að þeir myndu haldast óbreyttir í bili og eru því áfram 9,25%.

„Þetta bara segir okkur og byggir undir þann málflutning sem við höfum verið með að það var alveg ástæða til stýrilækkunar síðast,“ segir Finnbjörn.

Spurður hvort hann sé vongóður á að peningastefnunefndin lækki vextina næst þegar ákvörðun um þá verður tekin segir hann:

„Ég ætla bara ekkert að segja um það því þau eru algjörlega í öðrum heimi en við. Þannig ég bara veit það ekki.“

Húsnæðisverðið svarti sauðurinn

Loks segir Finnbjörn að spár ASÍ geri ráð fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna en að húsnæðisverð sé eini óvissuþátturinn hvað það varðar.

„Eina sem er svarti sauðurinn í þessu er húsnæðisverðið og á meðan ekkert gerist í þeim efnum er það alltaf óvissuþáttur.

En það eru stýrivextirnir sem eru að halda verðinu uppi núna því eins og hefur oft komið fram er að hægja á íbúðabyggingu út af stýrivöxtum,“ segir Finnbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert