„Þetta er mál sem varðar börn“

Greint var frá atburði þar sem ungur drengur ógnaði börnum …
Greint var frá atburði þar sem ungur drengur ógnaði börnum með hníf. Ljósmynd/Hilmar Friðjónsson

Forstöðumaður barnaverndar Eyjafjarðar kveðst hafa áhyggjur af almennri líðan hjá börnum og ungmennum í dag.

Fyrr í dag greindi RÚV frá því að svérsveit Akureyrar hefði verið kölluð út á laugardagskvöldið vegna ungs drengs sem hafði ógnað börnum með hníf.

Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndar Eyjafjarðar, kveðst ekki geta tjáð sig um einstaka mál sem eru á hennar borði en sagði málið vera í eðlilegum farvegi hjá lögreglu, barnavernd og skóla.

„Það er bara verið að vinna í málinu og ég get staðfest það að vinnan er í gangi, en ég get ekkert staðfest um þennan atburð eða annan þar sem þetta er mál sem varðar börn,“ segir Vilborg.

Birtingarmyndin er alls konar

Vopnaburður ungmenna hefur verið mikið í umræðu í vikunni í kjölfar frétta um hnífstunguárás á Menningarnótt. Þrjú ungmenni undir lögaldri særðust og er ein stúlka í lífshættu á Landspítala. Sextán ára piltur situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Vilborg kveðst hafa miklar áhyggjur af almennri líðan hjá börnum og ungmennum.

„Það eina sem ég hef sagt og er hægt að staðfesta með þeim gögnum sem við höfum er að ég er með áhyggjur af almennri hegðun barna, bæði líðan þeirra, sjálfsskaða og þetta ofbeldi. Birtingarmyndin er alls konar, ekki bara hnífar. Hún kemur fram með öllum hætti, bæði í orðum og gjörðum, og við höfum bara almennt áhyggjur af því.“

Mikilvægt að halda utan um börnin

Hún segir mikilvægt fyrir foreldra að fræðast og halda utan um börnin sín þegar svona atburðir gerast.

„Svo þarf að treysta svolítið kerfinu og treysta því að það verði tekið á þessu. Við grípum ekki til lögmanns götunnar þar sem alls konar sögur fara í gang þar sem sumt er rétt og annað ekki. Við þurfum alltaf að passa okkur að á bak við hvert atvik séu börn, foreldrar og systkini.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert