Þóttist falla í yfirlið vegna netárásar

Mikið gekk á á æfingunni í morgun.
Mikið gekk á á æfingunni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Netárásaræfing Syndis og Origo var haldin í morgun. Þykjustufyrirtækið Verksmiðjan varð fyrir netárás og stjórnendur 70 fyrirtækja áttu að finna lausnir á þeim vandamálum sem upp komu.

Stjórnendunum var dreift á borð í sal í Grand Hotel Reykjavík og fékk hvert borð með sér starfsmann frá Syndis sem aðstoðaði þá í umræðunum.

Glímdu við ýmis vandamál

Viðburðurinn hófst á því að leikarinn Máni Arnarson þóttist vera forstjóri fyrirtækisins og montaði sig með leikrænum tilburðum af velgengni þess. Næst kom leikarinn Guðmundur Einar inn og lék kerfisstjóra fyrirtækisins sem var að láta vita af því að tölvukerfið lægi niðri.

Á æfingunni komu síðan upp ýmis vandamál á borð við að hakkararnir sögðu fyrirtækinu að hafa samband við sig, gáfu upp lausnargjald, láku gögnunum og fleira sem krafðist þess að hópar á borðunum tækju mikilvægar ákvarðanir í sameiningu.

Fengu þeir nokkrar mínútur til þess þar til leikararnir tveir léku næsta atvik. Mikil kímni var í handritinu sem skapaði létta stemningu áður en að halda þurfti áfram.

Á einum tímapunkti þóttist annar þeirra meira að segja falla í yfirlið vegna álags, til þess að undirstrika mikilvægi þess að huga vel að heilsunni í þessum aðstæðum.

Æfingin fór fram úr björtustu vonum

„Þessi æfing fór alveg fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri þjónustulausnasviðs hjá Origo, í samtali við mbl.is.

Þetta er í annað sinn sem þessi æfing er haldin og Anton Egilsson, forstjóri Syndis, segir hana klárlega geta orðið að reglulegum viðburði.

Stjórnendurnir voru settir saman á borð til þess að taka …
Stjórnendurnir voru settir saman á borð til þess að taka ákvarðanir um hvað ætti að gera. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert