Tilbúinn að fara „alla leið“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari kveðst þess fullviss að dómsmálaráðherra hafni beiðni ríkissaksóknara um að hann verði leystur frá störfum tímabundið. Þetta kemur fram í nýjasta þætti Dagmála.

Eins og fram hefur komið hefur Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari óskað eftir því að Guðrún Hafsteinsdóttir leysi Helga tímabundið frá störfum vegna kæru Solaris-samtakanna á hendur honum. „Ég hef fulla trú á því að Guðrún Hafsteinsdóttir hafni þessu bara, sendi þetta til föðurhúsanna. Ég mæti bara í vinnu og fer að vinna fyrir kaupinu mínu sem þið skattgreiðendur greiðið mér og sinni því af alúð og dugnaði eins og ég hef verið að reyna að gera hingað til,“ segir Helgi. 

Mánuður er liðinn síðan Sigríður lagði til við Guðrúnu að Helgi yrði leystur frá störfum. Sjálf sagði Guðrún í samtali við mbl.is á þriðjudag að vonandi myndi styttri tími líða en vikur þar til málinu lyki. Helgi greinir frá því að hann hafi „stigið skref í þá átt að fá samtal“ við Guðrúnu og hefur hann trú á því að hann ræði við hana fljótlega. Ef málið spilast á versta veg fyrir þig, nú erum við að tala um ef og kannski, ætlar þú þá með þetta mál alla leið? „Já, það eru alveg hreinar línur,“ svarar Helgi. 

Helgi ræðir í Dagmálum þær hótanir sem hann hefur mátt sæta frá manni sem stöðugt hótaði honum og fjölskyldu hans líkamsmeiðingum og jafnvel lífláti. Sá maður er nú vistaður á Litla-Hrauni og dæmdur til átta ára fangelsis.

Helgi setti upp myndavélakerfi við hús sitt til að geta fylgst með þeim sem þangað komu. Hann viðurkennir að þetta ástand hafi tekið á hann, en það hafi ekki runnið upp fyrir honum fyrr en eftir á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka