„Verið að púsla öllum púslum saman“

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Samsett mynd

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að rannsókn á slysinu á Breiðamerkurjökli gangi ágætlega en ljóst sé að hún muni taka nokkurn tíma.

Bandarískt par lenti undir ísfarginu og var karlmaðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi en konan, sem er barnshafandi, var flutt á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún liggur enn. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er konan á batavegi og barnið sakaði ekki.

Búið að ræða við fjölmarga

„Málið er enn til rannsóknar hjá okkur og það mun taka sinn tíma. Við erum búin að ræða við fullt af fólki og erum að viða að okkur gögnum um málið og skoða þau vel og vandlega til að fá einhverja heildarmynd af þessu atviki,“ segir Sveinn Kristján við mbl.is.

23 ferðamenn voru í skipulagðri íshellaferð á jöklinum en upphaflega tilkynnti ferðaþjónustufyrirtækið Ice Pic Journeys, sem skipulagði ferðina í íshellinn, að þeir væru 25. Fyrirtækið veitti því lögreglu rangar upplýsingar um fjölda ferðamanna í hópnum. Í sólarhring töldu viðbragðsaðilar að tveir væru fastir undir ísfaginu en seinna kom í ljós að enginn var undir því.

Sveinn Kristján segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort ferðaþjónustufyrirtækið sé saknæmt en verið sé að púsla öllum púslum saman og í framhaldinu af því verði tekin ákvörðun hvort það verði dregið til ábyrgðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka