Vinna að breytingum í örorkulífeyriskerfinu

Starfshópur um eftirágreiðslur almannatrygginga.
Starfshópur um eftirágreiðslur almannatrygginga. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fyrsti fundur starfshóps um eftirágreiðslur almannatrygginga var haldinn í gær í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. 

Hlutverk starfshópsins er að skoða og útfæra leiðir til að breyta núverandi greiðslufyrirkomulagi almannatrygginga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands. 

Almannatryggingar eru til dæmis örorkulífeyrir, en vinna starfshópsins tengist breytingum á örorkulífeyriskerfinu sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum. Breytingarnar eru til þess fallnar að auka samræmi og einfalda kerfið fyrir notendur þess.

Í ósamræmi við önnur opinber kerfi

„Í dag berast greiðslur almannatrygginga fyrsta dag hvers mánaðar, sem er ólíkt því sem tíðkast með launagreiðslum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera. Greiðslur almannatrygginga í dag eru þannig í ósamræmi við önnur opinber kerfi,“ segir í tilkynningunni. 

Starfshópurinn mun einnig skoða hvort breytinga sé þörf á greiðslufyrirkomulagi annarra greiðslna sem Tryggingastofnun innir af hendi, með það að markmiði að einfalda og samræma greiðslufyrirkomulag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert