Afla upplýsinga um slysatíðni

Frá björgunaraðgerðum á Breiðamerkurjökli.
Frá björgunaraðgerðum á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Forsvarsmenn Ice Pic Journeys gáfu í gær út yfirlýsingu vegna banaslyss sem varð í ferð á vegum fyrirtækisins á Breiðamerkurjökli á sunnudag. Er þetta í fyrsta skipti sem forsvarsmenn fyrirtækisins tjá sig eftir slysið en Morgunblaðið og mbl.is hafa ítrekað reynt að ná af þeim tali á síðustu dögum.

Í yfirlýsingunni segjast þeir harma slysið og að hugur þeirra sé nú hjá aðstandendum þess er lést og öllum þeim sem lentu í slysinu. Tekið er fram í yfirlýsingunni að fyrirtækið muni nú veita starfsfólki sínu stuðning til að takast á við áfallið. Auk þess muni fyrirtækið vinna náið með lögreglu að rannsókn málsins. Þá ætlar fyrirtækið ekki að tjá sig frekar uns rannsókn er lokið.

Greint hefur verið frá að starfshópur hafi verið skipaður af ríkisstjórninni sem mun fara yfir öryggismál í jöklaferðum og m.a. rannsaka hvað fór úrskeiðis á Breiðamerkurjökli.

Í samtali við Morgunblaðið segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri að starfshópurinn hafi fundað og búið sé að senda út beiðnir um upplýsingar og gögn til ákveðinna aðila.

„Þannig að vinnan er farin af stað,“ segir ferðamálastjórinn.

Spurður hvort Ferðamálastofa sé með tölfræðilegar upplýsingar um slysatíðni ferðamanna hér á landi sem ekki tengjast umferð segir Arnar ekki svo vera en að stofnunin sé að vinna í að afla þeirra upplýsinga.

„Við höfum leitað til Landhelgisgæslunnar, Landsbjargar, landlæknis og heilbrigðisstofnana eftir gögnum,“ nefnir Arnar en tekur fram að ferlið sé flókið.

Er eitthvað vitað um hvenær þessar upplýsingar myndu liggja fyrir?

„Það bara veltur á hversu hratt þessar stofnanir vinna. Við ítrekum þessar beiðnir reglulega. Þetta eru augljóslega mikilvæg gögn og mjög gagnleg til þess að hafa á einum stað.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert