Altjón eftir eldsvoða í Efstadal I

Altjón varð á húsinu.
Altjón varð á húsinu. Ljósmynd/Aðsend

Eldur kviknaði í um 500 fermetra húsnæði í Efstadal I skammt frá Laugarvatni í nótt.

Altjón varð á húsinu og eingöngu standa eftir steyptir veggir, að sögn Halldórs Ásgeirssonar, aðalvarðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Hann segir að húsnæðið hafi áður verið notað sem fjós en hafi síðan þá sennilega verið notað sem geymsla og verkstæði. Ábúendur voru erlendis og því enginn heima.

Útkallið barst klukkan 00.45 í nótt og þegar fyrsti maður frá slökkviliðinu kom á vettvang var húsið þegar orðið alelda og þakið fallið.

Ekki er vitað um eldsupptök og mun lögreglan rannsaka málið betur.

Lítið vatn en vel gekk

Halldór segir að slökkvistarfið hafi gengið vel miðað við að þarna var lítið vatn að hafa og þurfti að ferja slökkvivatn í tankbílum. Slökkvistarfi lauk um sexleytið í morgun.

Um 20 manns voru á vettvangi í nótt frá nokkrum slökkvistöðvum.

Í nágrenni við Efstadal I er Efstidalur II þar sem veitingastaður er starfræktur og bændagisting.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert