Karlmaður á fertugsaldri lést í vinnuslysi á byggingarsvæði í Urriðaholti í Garðabæ í gær. Hinn látni var erlendur ríkisborgari, en ekki er unnt að skýra frá nafni hans að svo stöddu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Vinnueftirlitið rannsaki tildrög slyssins.
Tilkynning um slysið barst til lögreglu skömmu fyrir klukkan fjögur í gær en þrír sjúkrabílar og einn dælubíll voru sendir á vettvang auk fjölda lögreglumanna.