Bensíndæla keyrð niður í Varmahlíð

Frá framkvæmdum við Olís í Varmahlíð fyrr í sumar.
Frá framkvæmdum við Olís í Varmahlíð fyrr í sumar. mbl.is/Sigurður Bogi

Eldsneytisdælur á Olís í Varmahlíð í Skagafirði eru óvirkar þessa stundina eftir að bensíndæla og ljósastaur við stöðina var keyrður niður í umferðaróhappi.

Þetta staðfestir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri hjá brunavörnum Skagafjarðar, en hann segir að vinna á vettvangi standi enn yfir.

„Það er verið að bíða eftir Olíudreifingu til þess að tryggja þeirra hlut,“ segir Svavar og bætir við að slökkviliðið sinni nú upphreinsun við stöðina en nokkuð er um bensín og olíu á svæðinu þar sem óhappið varð.

Hreinsa upp bensín á vettvangi

„Dælan slitnar í rauninni frá í heilu lagi þannig þetta virðist vera blanda af bensíni og olíu,“ útskýrir Svavar.

Svavar segir að tveir til þrír bílar hafi átt hlut í umferðaróhappinu sem varð til þess að dælan slitnaði upp en að enginn sé slasaður.

Þá segir hann að bensínstöðin sjálf sé enn opin en dælurnar óvirkar í bili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert