Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni og brot á barnaverndarlögum.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að héraðssaksóknari hafi ákært konuna í júní fyrir kynferðislega áreitni gegn barni, en til vara fyrir blygðunarsemisbrot og barnaverndarlagabrot fyrir að hafa í október árið 2022, í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram, ítrekað viðhaft kynferðislegt og óviðeigandi orðbragð við ungan pilt.
Hún skrifaði m.a. „U just turned me on“, „I got toys if I need it“ og „You look hot“. Segir í ákærunni að með orðbragði sínu hafi konan sært blygðunarsemi drengsins með lostugu athæfi. Skilaboðin hafi verið vanvirðandi, ósiðleg og særandi.
Konan játaði afdráttarlaust sök fyrir dómi. Tekið er fram í dómi héraðsdóms að konan hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Þá sagði, að við ákvörðun refsingar hefði verið haft í huga að brot konunnar beindist gegn barni.
Héraðsdómur dæmdi konuna jafnframt til að greiða drengnum 300.000 kr. í miskabætur og um eina og hálfa milljón kr. í málsvarnarlaun og þóknanir verjenda og réttargæslumanns sem og annan sakarkostnað.