Buffý verður brátt á meðal landsmanna

Tvö ný nöfn hafa verið skráð í mannanafnaskrá.
Tvö ný nöfn hafa verið skráð í mannanafnaskrá. mbl.is/Eggert

Kvenkynsnöfnin Buffý og Amira hafa verið samþykkt af mannanafnanefnd. Karlkynsnafnið Josef og kvenkynsnafnið Hennie hlutu ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn að vera uppfyllt.

Skilyrðin eru að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, nafnið megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, nafnið skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess og að nafnið megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Segir í úrskurði mannanafnanefndar frá í gær að eiginnafnið Buffý taki íslenskri beygingu í eignarfalli, Buffýjar, og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn. Sé nafnið því samþykkt og verður fært á mannanafnaskrá.

Samþykkt þrátt fyrir að uppfylla ekki öll skilyrði

Á föstudaginn síðasta birti mannanafnanefnd þrjá úrskurði.

Var þar beiðni um karlkynsnafnið Josef sem eiginnafni hafnað en það þótti brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

Einnig var hafnað kvenkynsnafninu Hennie sem eiginnafni en það reyndi á þriðja ákvæði laganna um mannanöfn og taldist ekki hefð fyrir umbeðnum rithætti nafnsins.

Beiðni um kvenkyns eiginnafnið Amira var þá samþykkt þó að það reyndi þó einnig á þriðja ákvæði laganna.

Segir í úrskurðinum að hér sé aftur á móti um arabískt tökunafn að ræða og ritháttur þess gjaldgengur í umritun veitimáls.

„Telur mannanafnanefnd því rétt að leggja til grundvallar að hefð sé fyrir nafninu á grundvelli 4. gr. vinnulagsreglnanna og það samþykkt,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert