Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að hægst hafi á landsigi í Svartsengi.
Spurður hvort að landris sé hafið segir hann svo ekki vera að svo stöddu.
„Það hefur hægt mikið á landsigi. Það kemur í ljós á næstu sólarhringum hvort að það snýst við,“ segir Magnús.
Tveir gígar eru virkir í eldgosinu við Sundhnúkagíga sem hófst 22. ágúst.
Hann segir of snemmt að segja til um það hvort að það sé jafn mikið af kviku að komi inn í kvikuhólfið og er að fara upp á yfirborðið.
„En það gæti verið að það sé að ná jafnvægi núna,“ segir Magnús.
Hann segir þetta vera svipuð hegðun og í síðasta eldgosi.