Búið að hægjast mikið á landsigi

Magnús Tumi segir að um sé að ræða svipaða hegðun …
Magnús Tumi segir að um sé að ræða svipaða hegðun og í síðasta eldgosi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði við Há­skóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að hægst hafi á landsigi í Svartsengi.

Spurður hvort að landris sé hafið segir hann svo ekki vera að svo stöddu.

„Það hefur hægt mikið á landsigi. Það kemur í ljós á næstu sólarhringum hvort að það snýst við,“ segir Magnús.

Tveir gíg­ar eru virk­ir í eldgosinu við Sundhnúkagíga sem hófst 22. ágúst. 

Er að ná jafnvægi

Hann segir of snemmt að segja til um það hvort að það sé jafn mikið af kviku að komi inn í kvikuhólfið og er að fara upp á yfirborðið.

„En það gæti verið að það sé að ná jafnvægi núna,“ segir Magnús.

Hann segir þetta vera svipuð hegðun og í síðasta eldgosi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert