Dómari telur að Daði hafi logið

Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur er aðalmeðferð málsins fór …
Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur er aðalmeðferð málsins fór fram fyrir tveimur vikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómari telur framburð Daða Björnssonar fyrir dómi í málinu gegn Pétri Jökli Jónassyni hafa verið ótrúverðugan og ekki í nægjanlegu samræmi við gögn málsins. Pétur Jökull var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir aðild sína að stóra kókaínmálinu í gær.

Fyrir tveimur vikum lauk aðalmeðferð í málinu og báru þá vitni mennirnir fjórir sem hafa þegar verið dæmdir fyrir aðild sína að innflutningi tæplega 100 kg af kókaíni til landsins. Þeir vildu lítið segja. Annaðhvort sögðust þeir ekki þekkja Pét­ur eða hann ekki tengj­ast mál­inu.

Daði, sem meðhöndlaði efnin hér á landi, sagðist í skýrslu­töku lög­reglu hafa verið í sam­skipt­um við ein­hvern stór­gerðan, þrek­inn og ljós­hærðan Pét­ur sem klædd­ist stund­um jakka merkt­um Stone Is­land. Í skýrslu­töku í dómsal neitaði Daði að Pétur Jökull væri sami Pét­ur. Spurður hvort hann óttaðist einhvern í tengslum við málið svaraði Daði neitandi.

Staða Daða viðkvæm

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að við sönnunarmatið í álíka málum sé nauðsynlegt að setja atvikaröðina í samhengi við það sem alkunnugt er í almennu tilliti um slíka brotastarfsemi.

„Alkunnugt [er] að brotastarfsemi af fyrrgreindum toga á það til að litast af undirliggjandi ógn eða þrýstingi af margvíslegum toga frá samverkamönnum, þekktum sem óþekktum, og/eða öðrum þeim tengdum. Jafnframt, út frá hinu sama, að það geti meðal annars haft neikvæð eða hamlandi áhrif á einstaklinga sem standa frammi fyrir því að þurfa að gefa skýrslur undir meðferð slíkra mála í réttarvörslukerfinu.“

Þá segir að líta beri á núverandi stöðu Daða.

„Er alveg ljóst, þegar farið er yfir málið heildstætt, að B [Daði] var frá upphafi undir aðra settur og laut utanaðkomandi boðvaldi við framningu brotsins. Eru því miklar líkur á því að núverandi staða hans sé viðkvæm og hann hafi um langt skeið verið útsettur fyrir utanaðkomandi þrýstingi eða að veruleg hætta hafi verið á slíku eða öðrum álíka eftirmálum. Mátti þannig í raun aldrei búast við því að hann myndi bera sakir á ákærða með beinum hætti við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi.“

Daði Björnsson og Páll Jónsson.
Daði Björnsson og Páll Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðalmaður í brotinu“

Í dóminum er farið yfir öll þau gögn sem bendla Pétur Jökul við málið m.a. símagögn, raddgreining og ferðalög Péturs árið 2022.

„Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi verið umræddur samverkamaður, eins og brotinu er lýst í ákæru.“

Þá segir í dóminum að Pétur Jökull hafi haft það hlutverk að stýra nauðsynlegum ráðstöfunum sem hverfðust um móttöku og meðferð efnanna hér á landi. 

„Er því jafnframt skýrt að ákærða var ljóst að hann var hluti af hópi og að allir í hópnum hefðu hlutverki að gegna við innflutninginn. Ákærði var því í lagalegri merkingu aðalmaður í brotinu og jafnframt samverkamaður hinna fjögurra dómfelldu.“

Hættu rannsókn á hendur Guðlaugi, Halldóri og Sverri Þór

Minnst er sérstaklega á að ekki sé hægt að líta til ýmissa atriða sem tengjast Guðlaugi Agnari Guðmundssyni og Halldóri Margeiri Ólafssyni, sem hlutu þunga dóma í saltdreifaramálinu, og Sverri Þór Gunnarssyni, Svedda tönn, við sönnunarmat málsins.

Lögreglufulltrúi sagði fyrir dómi að upphaf rannsóknar stóra kókaínmálsins mætti rekja til samskipta Guðlaugs og Halldórs á EncroChat þar sem þeir virtust ræða saman um innflutning fíkniefna til landsins í timbursendingu frá Brasilíu.

Við meðferð máls þessa hjá ákæruvaldinu, samhliða útgáfu ákæru á hendur ákærða, var ákveðið að lögregla skyldi hætta rannsókn málsins á hendur Guðlaugs, Halldórs og Sverris.

Segir í dóminum að sögn ákæruvaldsins var sú ákvörðun tekin með þeim almenna fyrirvara að rannsóknin yrði tekin upp að nýju ef ný sakargögn kæmu fram á síðari stigum.

Nokkurn sakaferil að baki

Við ákvörðun refsingar horfði dómari til þess að hinn 45 ára gamli Pétur Jökull á nokkurn sakaferil að baki frá árinu 2007.

Hann hefur áður verið dæmdur fyrir stórfellt fíkniefnabrot og þá síðast var honum árið 2019 meðal annars gert að greiða sekt vegna umferðarlagabrota og varslna á fíkniefnum.

Pétur Jökull er 45 ára gamall.
Pétur Jökull er 45 ára gamall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til refsiþyngingar var horft til þess að um var að ræða mikið magn sterkra fíkniefna sem voru ætluð til sölu og dreifingar, og að brotið var skipulagt til þaula.

„Þá var þáttur ákærða mikill í brotinu, ásetningsstig hans var hátt og hann var fremur ósamvinnuþýður undir rannsókn málsins.“

Í dóminum segir að Pétur Jökull eigi sér engar málsbætur aðrar en að hafa gefið sig að lokum upp við lögreglu með því að koma á eigin vegum til landsins.

Pétur Jökull var því dæmdur í átta ára fangelsi. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í febrúar og er sá tími dreginn frá.

Þá skal Pétur Jökull greiða samtals 10.257.709 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert