Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi segist ekki vera að hugsa um formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum, að minnsta kosti ekki „eins og sakir standa.“
Ásdís er gestur Spursmála að þessu sinni þar sem hún ræðir málefni höfuðborgarsáttmálans og borgarlínunnar. Þar var hún spurð út í þennan möguleika í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 13,9% fylgi í nýjustu könnun Maskínu.
Á morgun, laugardag, stendur Sjálfstæðisflokkurinn fyrir flokksráðsfundi þar sem allir helstu trúnaðarmenn flokksins koma saman og ráða ráðum sínum. Þess er beðið með nokkurri eftirvæntingu hvernig flokksforystan, og einkum Bjarni Benediktsson, munu bregðast við tíðindum af hríðfallandi fylgi flokksins.
Enn hefur Bjarni ekkert gefið upp um það hvort hann hyggist gefa kost á sér á landsfundi flokksins í febrúar. Hann hefur verið formaður hans frá árinu 2009 eða í einn og hálfan áratug.
Orðaskiptin um mögulegt formannsframboð má sjá í spilaranum hér að ofan en þau má einnig sjá í textanum hér að neðan.
Ef Bjarni Benediktsson ákveður að söðla um á landsfundi í febrúar, kemur til greina að þú bjóðir þig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum?
„Eins og sakir standa er ég bara með fókusinn á Kópavog.“
En í febrúar?
„Ég hef nú sagt það opinberlega að ég sé fram á að ég mun vilja halda áfram sem bæjarstjóri Kópavogs. Ég er búin að vera núna tvö ár, það eru tvö ár eftir og við eigum mjög mörg skemmtileg og áhugaverð verkefni eftir og ég vil framfylgja...“
Þú ert að slípast til í pólitískum svörum, þetta er ekki svar við spurningunni. Kemur til greina að þú bjóðir þig fram til formennsku í febrúar ef Bjarni víkur af vettvangi.
„Eins og sakir standa ekki að hugsa um það.“
Viðtalið við Ásdísi má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan. Með henni í útsendingu var Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. Þá fóru yfir fréttir vikunnar þau Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.