Eldur kviknaði í tveggja hæða húsi í Garði

Slökkviliðsmenn að störfum í nótt.
Slökkviliðsmenn að störfum í nótt. Ljósmynd/Aðsend

Eldur kviknaði í tveggja hæða einbýlishúsi í Garði. Útkallið barst Brunavörnum Suðurnesja laust fyrir klukkan hálffjögur í nótt.  

Að sögn Eyþórs Rúnars Þórarinssonar slökkviliðsstjóra virðist sem tvær íbúðir hafi verið í húsinu. Fólkið á efri hæðinni var ekki heima en íbúa á neðri hæðinni tókst að koma sér út sjálfur og fékk hann aðhlynningu á heilsugæsludeild.

Rjúfa þurfti þakið 

Öll vaktin var kölluð út þegar útkallið barst, auk mannskaps sem var á frívakt. Eldurinn var staðbundinn við efri hæðina. Rjúfa þurfti þakið og tókst að stöðva eldinn áður enn hann barst á neðri hæðina.

Slökkviliðsmaður þurfti aðhlynningu

Slökkvistarf gekk vel, að sögn Eyþórs Rúnars, og var slökkviliðið í um þrjá og hálfa klukkustund á vettvangi. Einn slökkviliðsmaður þurfti þó á aðhlynningu að halda eftir að hann féll af þakinu en hann var í línu sem bjargaði honum. Hann fékk hnykk á öxlina og var fluttur í myndatöku.

Óljóst er um eldsupptök en mestur eldurinn var við eldhúsið á efri hæðinni. Lögreglan hefur í dag rannsókn á því sem gerðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert