Fólk tali um flokksforystu eftir hentugleika

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eyþór

„Það segir sig sjálft að þau sem taka að sér að leiða stjórnmálaafl bera ábyrgð umfram alla aðra innan þess stjórnmálaafls.“

Þetta sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, innt eftir því hvort hún tæki sinn hluta ábyrgðar á fylgistapi flokksins.  

Var ráðherrann nokkuð hikandi í svörum um hverjir væru ábyrgir fyrir sögulegri lægð fylgisins sem mældist aðeins 14 % í nýlegri könnun Maskínu – eða lægra en fylgi Miðflokksins.

„Ég bara veit ekki hvernig ég á að svara þessu... æji það fer eftir því hvernig hentar fólki hvenær það talar um forystu. Sumir meina formaður og aðrir meina forysta.“  

Ákall um sjálfstæðari Sjálfstæðisflokk

Spurð hvernig fylgið líti við henni kveðst Þórdís taka stöðunni afar alvarlega og hyggist ræða hana við flokksmenn á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Spennandi verði að fylgjast með íslenskum stjórnmálum á næstunni sem hún telji muni taka miklum breytingum.

„Ég veit að við getum sótt fram og við verðum að leiða og hlusta. Og þegar ég hlusta þá heyri ég ákall um sjálfstæðari Sjálfstæðisflokk.“

Forystan verði ekki endurskoðuð um helgina

En finnst þér eitthvað til í því að það þurfi að endurskoða forystu flokksins á fundinum um helgina og í vetur á landsfundinum?

„Á flokksráðsfundi á morgun verða ekki gerðar breytingar á forystu flokksins. Við erum með stóran landsfund í febrúar á næsta ári þar sem verður kosin forysta sem mun leiða flokkinn í gegnum næstu kosningar og inn í framtíðina. Það eru ennþá nokkrir mánuðir í þann fund,“ segir Þórdís.

„Að sjálfsögðu tek ég sem forystumaður í Sjálfstæðisflokknum þessa stöðu mjög alvarlega og þess vegna er fundurinn á morgun mikilvægur. Við erum stjórnmálaflokkur sem er fyrst og fremst breiðfylking þar sem margar ólíkar stjórnmálaraddir sameinast um grundvallarstef Sjálfstæðisflokksins sem hefur skilað íslenskri þjóð gríðarlegum árangri og framförum í 95 ára sögu flokksins. Það er okkar leiðarstjarna og verður áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert