Gistinóttum fækkaði um 5,3%

Ferðamenn á Laugavegi.
Ferðamenn á Laugavegi. mbl.is/Árni Sæberg

Gistinætur á hótelum í júlí voru tæplega 562.900 talsins eða um 5,3% færri en á sama tíma í fyrra þegar þær voru 594.600.

Gistinóttum fjölgaði um 5,7% á Norðurlandi en fækkaði töluvert á hótelum í öðrum landshlutum. Mest var breytingin á Austurlandi (-19,2%) og Vesturlandi og Vestfjörðum (-16,6%) en gistinóttum fækkaði um 5,0% á hótelum á höfuðborgarsvæðinu, að því er kemur fram á vef Hagstofunnar.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru 449.100, eða 80% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 113.800 (20%). Gistinætur erlendra ferðamanna voru 8,4% færri en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 9,1%.

Framboð hótelherbergja í júlí jókst um 1,7% miðað við júlí 2023. Á sama tíma dróst herbergjanýting á landinu saman um 5,9 prósentustig. Herbergjanýting dróst saman í öllum landshlutum nema Norðurlandi. Mesta breytingin var á Austurlandi (-13,6) og Vesturlandi og Vestfjörðum (-12,2).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert