Um tugur ungra Dana gekk í morgun rólega í hringi á Kóngsins nýjatorgi í hjarta Kaupmannahafnar og allir með skilti á lofti.
Við fyrstu sýn hefði mátt halda að um hófstillta kröfugöngu væri að ræða en þegar betur var að gáð mátti sjá að á skiltunum voru texta-myndverk, verk úr smiðju Margrétar Bjarnadóttur danshöfundar, skálds og myndlistarkonu.
Þessi gjörningur Margrétar verður endurtekinn á torginu á morgun en hann er á dagskrá hinnar vinsælu norrænu listkaupstefnu CHART í Kaupmannahöfn sem þessa dagana er haldin í tólfta skipti í kunnum sölum Charlottenborgar og Konunglega listakademísins við torgið og Nýhöfnina.
36 helstu gallerí Norðurlanda taka þátt í CHART að þessu sinni og meðal annars þrjú íslensk, i8, BERG Contemporary og Þula og sýna þau og bjóða til sölu ný sem eldri myndlistarverk eftir fjölda íslenskra listamanna.