Leita enn að einum bíl

Ljósmynd/Colourbox

Einn bíll er enn ófundinn af bílunum sex sem stolið var úr höfuðstöðvum Heklu við Laugaveg í Reykjavík í vikunni.

Þetta segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, í samtali við mbl.is en tveir bílanna fundust í fyrradag og þrír í gær en allir fundust þeir í götum nálægt bílaumboðinu. Bílarnir voru bæði í eigu fyrirtækisins og viðskiptavina þess.

Bíllinn sem ófundinn er af gerðinni Skoda Octavia en stuldurinn kom í ljós þegar bílarnir áttu að fara í þjónustu og fundust ekki á svæðinu.

Lögreglan vinnur að rannsókn málsins og meðal þess sem er verið að skoða hvernig þjófunum tókst að komast yfir lykla af bílunum.

Að sögn Friðberts eru bílarnir fimm sem hafa fundist nánast óskemmdir en þó eru skemmdir innandyra í einum bílnum þar sem þjófarnir rifu úr sjálfvirkan neyðarhringibúnað sem þeir hafa haldið að væri staðsetningartæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert