Leki í vökvakerfi vélar olli fjögurra tíma seinkun

Farþegi í vélinni segir að lögreglumenn hafi komið um borð …
Farþegi í vélinni segir að lögreglumenn hafi komið um borð í vélina. Icelandair hafnar því alfarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugi Icelandair frá Heathrow-flugvelli í Bretlandi til Keflavíkurflugvallar seinkaði um fjórar klukkustundir vegna bilunar sem varð vart við er vélin lenti á Heathrow um hádegisbil í gær.

Farþegi um borð í vélinni, er hún lenti á Heathrow, segir að þrír lögreglumenn hafi komið um borð í vélina.

Icelandair hafnar því alfarið að lögreglumenn hafi komið um borð eða komið málinu að nokkru leyti við.

Segir lögreglu ekki hafa komið um borð

Ásdís Ýr Pét­urs­dótt­ir, for­stöðumaður sam­skipta hjá Icelandair, segir í sam­tali við mbl.is að slökkviliðsbíll hafi tekið á móti vélinni vegna leka í vökvakerfi.

„Það hefur alveg verið staðfest að það var ekki lögregla sem kom á staðinn, en það kom upp bilun og það var sem sagt leki í vökvakerfi vélarinnar,“ segir Ásdís.

Vélin var skoðuð og í kjölfarið var skipt um varahlut. Samkvæmt Ásdísi átti vélin að fara af stað frá Heathrow klukkan 16.30, eða fjórum tímum á eftir áætlun.

„Svo komu þrír lögreglumenn um borð“

Flugvélin, með flugnúmer FI450, lenti á Heathrow um hádegisbil í gær og segir sjónarvottur í samtali við mbl.is að slökkviliðsbíll hafi komið að vélinni og að farþegar hafi verið upplýstir um það að það væri vegna leka.

„Svo var vélin dregin, kom dráttarbíll og dró hana upp að einhverjum legustað. Þar biðu lögreglubílar og svo komu þrír lögreglumenn um borð,“ segir farþegi í samtali við mbl.is um atburðarásina á Heathrow.

Veistu meira? Þú get­ur sent okk­ur ábend­ing­ar á tölvu­póst­fangið frett­ir@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert