Miklar skemmdir eftir brunann á Akranesi

Frá Akranesi.
Frá Akranesi. mbl.is

Miklar skemmdir urðu á íbúð í Asparskógum á Akranesi í gærkvöld þegar eldur kviknaði í fjölbýlishúsi.

Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, segir í samtali við mbl.is að slökkviliðið hafi verið kallað út rétt eftir klukkan hálfellefu í gærkvöld vegna eldsvoða á neðri hæð í tveggja hæða fjölbýlishúsi.

„Það var mikill eldur og reykur þegar við komum á staðinn og það var kallað út allt tiltækt lið á svæðið. Slökkvistarfið gekk vel en það var mikill eldur í íbúðinni og það er ljóst að hún er mjög mikið skemmd vegna hita og reyks,“ segir Jens Heiðar.

Hann segir að engar aðrar íbúðir í fjölbýlishúsinu hafi orðið fyrir tjóni. Einn var í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði og segir Jens Heiðar að hann hafi náð að koma sér út. Hann var færður til skoðunar en ekki er talið að honum hafi orðið meint af.

Ekki er vitað um eldsupptök en lögreglan á Vesturlandi tók við vettvangi og fer með rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert