Mun lækka fasteignaverð þrátt fyrir hærra lóðaverð

Keldnalandið, sem ríkissjóður lagði inn sem framlag til fjármögnunar samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu, mun tryggja aukið lóðaframboð í Reykjavík og þar með stuðla að lægra fasteignaverði. Þetta er mat Davíðs Þorlákssonar, framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf. sem er gestur Spursmála að þessu sinni.

Hann er spurður út í þetta mál í þættinum í ljósi þess að nú hefur virðist mat svæðisins verið hækkað úr 15 í 50 milljarða króna en Betri samgöngur munu ná þeim fjármunum út úr landssvæðinu sem sölu lóðaréttinda.

Það sem helst hefur stuðlað að síhækkandi fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum er takmarkað framboð lóða undir íbúðarhúsnæði og hækkandi lóðaverð sem því hefur verið samfara.

Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Er verið að pumpa upp lóðaverðið?

Keldnaland er stór hluti af fjármögnun verkefnisins. Ríkið afhendir Betri samgöngum þetta mikilvæga og fallega byggingarland. Og hefur raunar aukið við stærð þess í seinni áföngum. Upphaflega var gert ráð fyrir að þetta myndi skilja 15 milljörðum inn í verkefnið. Núna stærir fjármálaráðherra sig af því að þetta verði 50 milljarðar. Það eru auðvitað bara lóðagjöld. Þetta er væntanlega ekki mikilsvert framlag til þess að draga úr íbúðakostnaði fólks í borgarlandinu ef hagsmunirnir eru þeir að pumpa upp lóðaverðið eins og menn geta á þessu svæði?

„Það eru akkúrat hagsmunir okkar allra á höfuðborgarsvæðinu að lóðaframboð sé aukið, það er akkúrat það sem við þurfum á íbúðamarkaðinn er aukið framboð og þarna er búið að...“

Ég er sammála því, þú misskilur spurninguna, ég segir bara...

„Nei spurningin var bara röng.“

Nei spurningin er algjörlega rétt. Ef menn hafa hagsmuni af því að pumpa upp lóðaverðið þá hækkar það auðvitað íbúðaverðið.

„Það sem mun hafa jákvæð áhrif á íbúðaverð er aukið framboð. Og það er ekkert verið að pumpa neitt upp...“

15 milljarðar í 50

15 milljarðar í 50.

„Stefna borgarinnar og hins opinbera í því að mjög hátt hlutfall verði í óhagnaðardrifnum lóðum. Þarna verður mjög mikið um atvinnuhúsnæði. Þarna getur orðið 13 þúsund manna byggð og atvinnuhúsnæði fyrir 9000 manns og það mun hafa mjög jákvæð áhrif á tækifæri fólks til að kaupa. Þarna er líka hugsað fyrir því að það verði ekki bílastæðakjallari í hverju húsi heldur verði miðlæg, það sem er kallað „mobility hub“, eða farhús. Það mun draga verulega úr byggingarkostnaði því það er margra milljóna kostnaður per íbúð að vera með bílakjallara þannig að það er vel hægt að gera þetta með hagkvæmum hætti fyrir þau sem eru að flytja þarna en samt þannig að þetta skili miklum ávinningi inn í þessi verkefni.“

Ég held bara að þegar fólk heyrir 15 milljarða og svo segi menn, við fáum miklu meira fyrir þetta, 50 milljarða, að þá átti menn sig á því að lóðaverðið fer hækkandi og það er það sem menn hafa áhyggjur af varðandi byggingarkostnaðinn.

„Það verður bara markaðsverð á þessum lóðum eins og öllum öðrum. Það verður ekkert hærra verð þarna. Og munurinn á þessu er sá, 15 milljörðum versus 50 milljarðar, er sá að 15 milljarðarnir voru mjög varlega áætlaðir held ég. Þá voru menn algjörlega að renna blint í sjóinn um hvað gæti verið þarna. Síðan þá erum við búin í samstarfi við Reykjavíkurborg búin að halda alþjóðlega þróunarsamkeppni þannig að núna vitum við nokkurn veginn hvað eru margir fermetrar þarna og þá er auðveldara að reikna út hver verðmætin eru.“

Framboðsskortur

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs leggur orð í belg:

„En bara með lóðaverðið. Af hverju fer það hækkandi, það er vegna þess að það er framboðsskortur á höfuðborgarsvæðinu. Þú nefndir vaxtarmörkin áðan.“

Ég ræddi vaxtarmörkin við borgarstjórann, hann vill ekki leyfa ykkur að færa þau út.

„Ég er algjörlega ósammála borgarstjóra.“

Af hverju settuð þið það ekki sem skilyrði fyrir samþykktinni?

Hann talaði fyrir því að uppbygging ætti bara að vera í kringum borgarlínuna. Sem þýðir að borgarstjóri er að tala fyrir því að uppbygging í Reykjavík verði bara á þéttingarreitum. Það mun taka tíma, það er kostnaðarsamara og það mun leiða til þess að við munum ekki ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það blasir við að þessi vaxtarmörk voru sett árið 2015, að fólksfjölgunin hefur verið slík að forsendur eru brostnar. Það er þess vegna sem Kópavogsbær, Hafnarfjörður og Garðabær eru að undirbúa, og vilja stækka vaxtarmörkin.

Þið gerið það ekki nema með samþykki Reykjavíkurborgar.

„Já, já en þá verður borgarstjóri að svara því hvernig hann hyggist tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði, hvernig við ætlum að ná verðstöðugleika á ný og lækkun vaxta.“

Ja, hann gerir það ekki, hann kom hér og ég spurði hann út í þetta. Af hverju settuð þið þetta ekki sem skilyrði fyrir undirritun samgöngusáttmálans?

„Af því að þetta er ekkert með aðkomu ríkisins. Þetta er bara samtal á milli okkar sveitarfélaganna.“

Þú hefðir alveg getað sett þetta sem skilyrði.

„Ég held að það blasi alveg við að ef við ætlum að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og stuðla að hagkvæmari uppbyggingu á íbúðum fyrir höfuðborgarbúa þá verðum við að breyta vaxtarmörkunum. Og þetta er bara umræða sem er í gangi núna og ég óttast ekkert að taka þessa umræðu við borgarstjóra eða aðra sveitarstjórnarmenn.“

Nýj­asta þátt Spurs­mála má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan. Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Kópa­vogi, og Davíð Þor­láks­son, fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna ohf., ræddu sam­göngusátt­mál­ann í þætt­in­um. Her­mann og Ólína fóru yfir frétt­ir vik­unn­ar. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert