Ólína: „Þeir eru oft aulalegir í málflutningi“

Til að styrkja stöðu sína enn frekar þarf Kamala Harris að sannfæra Bandaríkjamenn um að hún sé ekki of langt til vinstri. Á sama tíma þarf Donald Trump að hætta með barnalegar móðganir og einbeita sér að málefnunum ef hann vill styrkja stöðu sína.

Þetta segir Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is, í nýjasta þætti Spursmála.

Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir, for­seti fé­lags­vís­inda­deild­ar Há­skól­ans á Bif­röst og Her­mann Nökkvi fóru yfir stöðuna í baráttunni um Hvíta húsið og sagði Ólína að baráttan hefði verið dramatísk hingað til.

Harris verði að vera fágaðri en Trump

Trump og Harris munu mætast í kappræðum á sjónvarpsstöð ABC þann 10. september.

Heldurðu að hún hafi hann undir í kappræðunum?

„Það fer svolítið eftir því hvað hann er ósvífinn. Þið munið hvernig þetta var með Hillary Clinton, hún átti aldrei svar við ósvífninni í honum. Hann skaut undir belti og hún átti aldrei svar, var að reyna vera málefnaleg og sigla yfir. Það voru kannski mistök. Þú getur kannski ekkert mætt manni eins og Trump með öðru en hans eigin vopnum. En hún verður náttúrulega alltaf að vera fágaðri en hann,“ segir Ólína.

Hermann væntir þess að Harris muni reyna mála þá mynd að á kappræðusviðinu séu tveir gerólíkir einstaklingar mættir, saksóknari og dæmdur glæpamaður.

„Það er það sem hún hefur reynt að gera í kosningabaráttunni og það er það sem hún mun auðvitað reyna að gera í kappræðunum,“ segir Hermann.

Rýnt í stöðuna vikulega fram að kosningum

Ólína segir að Trump hafi líklega ekki hjálpað sér mikið með valinu á J.D. Vance sem varaforsetaefni. 

„Hann er ekki að bæta Trump upp á neinn hátt, hann er eiginlega bara að undirstrika hvað þeir eru oft aulalegir í málflutningi,“ segir Ólína um Vance. 

Ljóst er að kosningarnar í nóvember munu verða æsispennandi, og mun Hermann Nökkvi fara yfir stöðuna í Spursmálum á hverjum föstudegi fram að kosningum. Ræðir hann þar nýjustu skoðanakannanir á hverjum tíma og fer yfir helstu vendingar vestanhafs.

Nýjasta þátt Spursmála má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan. Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Kópa­vogi, og Davíð Þorláksson, fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna ohf., ræddu samgöngusáttmálann í þættinum. Hermann og Ólína fóru yfir fréttir vikunnar. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert