Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur telur að þingmaður Framsóknar hafi staðið frammi fyrir hagsmunaárekstrum við meðferð breytinga á búvörulögum í vor.
Hefur hann sent erindi, sem hann segir vera kæru, til forsætisnefndar Alþingis um brot á siðareglum fyrir Alþingismenn.
Í bréfinu er óskað eftir rannsókn á því hvort Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar, hafi staðið frammi fyrir hagsmunaárekstrum við meðferð búvörulagabreytinganna á s.l. vori, og einnig umboðsvanda og freistnivanda.
„Með bréfi þessu óska ég undirritaður eftir að Alþingi taki til athugunar hvort Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar þingsins, hafi með þátttöku sinni í þinglegri meðferð búvörulaganna í vor leið (505. mál á 154. löggjafarþingi, sem varð að lögum nr. 30/2024) gerst brotlegur við Siðareglur fyrir alþingismenn,“ segir í bréfinu.
Þórarinn á 0,8% hlut í Búsæld ehf., sem á rúmlega 43% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf..
Skömmu eftir að búvörulögin voru samþykkt var tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf. samþykkt. Búvörulögin gerðu umrædd kaup möguleg.
Í bréfi Hauks eru leidd að því rök að Þórarinn hafi staðið frammi fyrir hagsmunaárekstrum, freistnivanda og umboðsvanda og að hann hefði átt að bregðast öðruvísi við en hann gerði.
Þá segir í bréfinu að Þórarinn hafi í víðara sjónarhorni ekki axlað ábyrgð sína sem þingmaður og „niðurlægt þingræðið“.
Þórarinn segist ekki hafa íhugað að lýsa yfir vanhæfi er atvinnuveganefnd lagði til umdeildar breytingar á búvörulögum, sem gera umrædd kaup möguleg.
„Þetta lá fyrir allan tímann, að við hjónin ættum þennan eignarhlut í þessu eignarhlutafélagi sem á í Kjarnafélagi Norðlenska,“ sagði Þórarinn í samtali við mbl.is.