Stúlkan enn í lífshættu

Stúlkan er enn í lífshættu.
Stúlkan er enn í lífshættu. mbl.is/Ólafur Árdal

Stúlkan sem varð fyrir alvarlegri hnífstunguárás við Skúlagötu í Reykjavík á laugardagskvöldið er enn í lífshættu á sjúkrahúsi.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir við mbl.is að rannsókn málsins miði vel og hún hafi verið í forgangi frá því atburðurinn átti sér stað.

„Við teljum okkur vera að fá alltaf betri og betri mynd af því sem gerðist,“ segir Grímur. Hann segir ekkert sérstakt sem bendi til þess að um hatursglæp hafi verið að ræða en ítrekar að ef það bendi eitthvað til þess þá verði það tekið til rannsóknar.

Sextán ára piltur var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Það rennur út í dag og segir Grímur að tekin verði ákvörðun um hádegið hvort krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir piltinum.

Uppfært kl. 11:54

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að pilturinn hafi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 26. september á grundvelli almannahagsmuna.

„Hann er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni, tvær stúlkur og einn pilt, með hnífi, en önnur stúlknanna slasaðist mjög alvarlega og er enn í lífshættu. Rannsókn málsins miðar vel,“ segir lögreglan í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert