„Það hefur ekki neitt verið skorið niður til FAS sem tengist skólanum,“ segir Ásmundur Einar Daðason menntamálaráðherra spurður hvort ráðuneytið hyggist ætla að snúa við niðurskurð til námsbrautar í jökla- og fjallaleiðsögn.
Stjórnarmaður í félagi fjallaleiðsögumanna og kennari í náminu við Framhaldskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) vakti nýlega til máls á því að ekki væri hægt að túlka niðurskurð til námsbrautarinnar á annan hátt en að verið væri að leggja það niður.
Ráðherrann áréttir að ráðuneytið hafi hvorki lagt til né þess krafist að námið yrði fellt niður.
„Það eru skólarnir sem ákveða sitt námsframboð. Við höfum stutt skólann í því að byggja þetta nám upp,“ segir Ásmundur.en segir ráðuneytið á sama tíma vinna með skólum að því að þeir haldi sig innan fjárheimilda.
Segir hann ráðuneytið hafa ákveðið í samráði við skólameistara FAS að þau muni gefa sér fram að áramótum til að finna leiðir til að halda náminu gangandi.
„Við styðjum það eindregið að þetta nám sé til staðar og ætlum að vinna með skólanum að leiðum til þess að það geti orðið.
Er það ekki sérstaklega mikilvægt í ljósi slyssins í Breiðamerkurjökli?
„Ég held bara að þetta sé mikilvægt nám og skólinn er metnaðarfullur þegar kemur að því. Við þurfum í sameiningu að finna leiðir til þess að það geti gengið innan reksturs skólans.“