Telur sterk rök fyrir að flýta göngunum

Bjarni segir það hafa verið gagnglegt að fara á svæði …
Bjarni segir það hafa verið gagnglegt að fara á svæði hamfaranna. Ljósmynd/Fjallabyggð

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra heimsótti Siglufjörð í gær til að virða fyrir sér þær hamfarir sem herjað hafa á bæinn síðustu daga og ekki síður jarðsig og skriður á Siglufjarðarvegi í svonefndum Almenningum.

Úrhellisrigning var á Tröllaskaga í liðinni viku. Grjót- og aurskriður féllu og ákvað aðgerðastjórn á Norðurlandi að loka Siglufjarðarvegi fyrir viku vegna vatnavaxta og skriðufalla.

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins segir Bjarni það hafa verið gagnlegt að fara á vettvang hamfaranna og funda með fólki af svæðinu. Hafi hann hitt bæjarstjóra Fjallabyggðar, Sigríði Ingvarsdóttur, auk fulltrúa Fjallabyggðar, slökkviliðsstjóra svæðisins og ofanflóðasérfræðings Veðurstofu Íslands.

Segir Bjarni að skoðað hafi verið hvernig vegurinn um Almenninga sé sífellt að skríða fram og segir augljóst að þarna hafi verið talsverðar hamfarir, bæði í bænum og á Siglufjarðarvegi.

„Fulltrúar bæjarstjórnar lögðu mikla áherslu á að hefja rannsóknir vegna fyrirhugaðra ganga, sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun eins og hún lá fyrir þinginu í vor. Rætt var um að tryggja þyrfti 30 milljónir króna til að hefja rannsóknir,“ segir Bjarni í svari sínu.

Tekur hann fram að hann hafi rætt málið við innviðaráðherra eftir fundinn í gær, en formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur sömuleiðis boðað sveitarstjórann á fund nefndarinnar nk. mánudag.

„Ég tel sterk rök fyrir því að flýta þessari rannsóknarvinnu og vænti þess að í samvinnu við innviðaráðherra verði hægt að bregðast vel við þeirri beiðni á næstu dögum,“ segir í svari Bjarna.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert