Tveir jarðskjálftar nálægt þremur að stærð mældust í Bárðarbunguöskju í morgun, en talsverð skjálftavirkni hefur verið á þessu svæði síðastliðinn sólarhring.
Skjálfti af stærðinni 2,9 mældist klukkan 11.07 og mínútu síðar kom annar af stærðinni 2,7. Í kjölfarið mældust tveir minni skjálftar.
„Það er algengt að það komi skjálftar af þessari stærð í Bárðarbungu og til að mynda mældist skjálfti af stærðinni 3 um miðjan ágúst,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hún segir að skjálftarnir í morgun hafi verið austanverðri öskjunni. Spurð hvort þessir skjálftar séu vísbendingar um að eitthvað sé að fara af stað segir Lovísa:
„Nei, ég get ekki sagt það. Þegar það fer að draga til tíðinda þá mun það ekki fara á milli mála. Þá koma margir jarðskjálftar í röð og mikil hrina.“
Í gær voru liðin tíu ár frá því eldgos hófst í Holuhrauni. Gosið hófst með 1.500 metra sprungu og hraunstreymi sem náði allt að 300 rúmmetrum á sekúndu. Áður en eldgosið hófst var mikil skjálftahrina í Bárðarbungu.