Það virðist vera farið að grafa undan gangnamunna Strákagangna. Hola hefur uppgötvast í göngunum þar sem virðist hafa fallið undan að sögn Bjarna Jónssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og þingmanns Vinstri grænna.
Bjarni hefur boðað til upplýsingafundar á mánudagsmorgun fyrir nefndina, Vegagerðina og sveitarfélögin Fjallabyggð og Skagafjörð vegna Siglufjarðarvegar í Almenningum.
Úrhellingsrigning var á Tröllaskaga frá fimmtudegi til laugardags í síðustu viku. Grjót- og aurskriður féllu og aðgerðastjórn á Norðurlandi ákvað á föstudaginn að loka veginum vegna vatnavaxta og skriðufalla.
„Vegurinn er einfaldlega hættulegur og staðan kallar á það að það verði brugðist eins öflugt við og hægt er,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að bæði þurfi að reyna að halda veginum öruggum en að einnig þurfi að flýta undirbúningi og gerð jarðganga milli Fljóta og Siglufjarðar.
Bjarni segir stöðuna vera alvarlega og að vegurinn haldi áfram að færast til. Það virðist fara að vera meiri hreyfing á hlíðinni heldur en hafi verið. Hún gæti í rauninni gefið sig hvenær sem er.
Þingmaðurinn segir þurfa að setja aukinn kraft í að flýta fyrir framkvæmd. „Það er það mikið í húfi og verður ekki beðið mikið lengur með að finna öruggari og betri lausnir fyrir fólkið,“ bætir hann við.
Á fundinum á mánudeginum munu þau fá yfirferð frá Vegagerðinni þar sem staða undirbúnings, rannsókna og hönnunar á jarðgöngunum verður rædd.
Bjarni segir að samgönguáætlunin verði uppfærð þar sem verði reynt að taka sem best á málinu.
Hann segist einnig vænta að nefndin muni leggja áherslu á að flýta fyrir verkefninu. Bendir hann á að Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins í kjördæminu, hafi óskað eftir fundi í nefndinni og að fleiri nefndarmenn telji mikilvægt að farið verði yfir málið.